Hönnuðu rafknúinn kappakstursbíl

Liðsmenn Team Spark.
Liðsmenn Team Spark. Árni Sæberg

„Þetta hefur gengið glimrandi vel,“ segir Ragnheiður Björk Halldórsdóttir, liðsstjóri Team SPARK, en liðið, sem er skipað verkfræðinemum við Háskóla Íslands, afhjúpaði í dag rafknúna kappakstursbílinn TS14 á Háskólatorgi.

Liðið fer með bílinn í alþjóðlegu kappaksturs- og hönnunarkeppnina Formula Student sem haldin verður á hinni frægu Silverstone-keppnisbraut í Bretlandi í sumar.

Verkfræðinemarnir hafa undanfarna mánuði hannað og smíðað bíllinn og segir Ragnheiður að gífurleg vinna hafi farið í verkefnið.

Unnið dag og nótt

„Þúsundir klukkutíma,“ segir hún spurð um hversu mikill tími hafi farið í verkið og bætir við: „Við reyndum á tímabili að halda utan um klukkutímana sem höfðu verið lagðir í þetta en það fór eiginlega úr böndunum, klukkutímarnir voru orðnir svo margir.“

Hún bætir því við að færa þurfi heilmiklar fórnir til að taka þátt í svona verkefni. „Við erum öll í fullu námi samhliða því að vinna að þessum bíl. Þetta er á við tvöfalt nám þannig að það mætti í raun segja að við værum í þrefaldri vinnu,“ nefnir hún.

„Við erum ómetanlega þakklát fjölskyldum og vinum fyrir það umburðarlyndi og þá þolinmæði sem þau hafa sýnt okkur upp á síðkastið. Það nær engri átt hvað þau hafa verið virkilega umburðarlynd.“

Unnið hefur verið nótt og dag en nú er hins vegar komið að ákveðnum tímamótum.

Komið að tímamótum

„Við höfum verið að vinna að þessu verkefni frá því í haust. Fyrir áramót byrjuðum við á því að hanna bíllinn og nú frá áramótum höfum við verið að vinna að framleiðslu hans. Nú síðustu misserin höfum við verið að setja hann saman og nú erum við komin að þeim tímamótum að bíllinn er tilbúinn,“ segir Ragnheiður.

Hönnun og smíði kappakstursbíls er mikið og dýrt verk en liðið hefur átt í góðu samstarfi við Háskóla Íslands og styrktaraðila í atvinnulífinu, sem eru yfir fjörutíu talsins.

Marel styrkir Team Spark

Marel er aðalstyrktaraðili Team Spark en þau hafa átt í mjög góðu samstarfi við smíði á íhlutum í bílinn. Hluti fjöðrunarkerfisins er smíðaður í Marel og þá kemur jafnframt stór hluti vinnu sem tengist rafkerfi bílsins frá Marel. Hefur liðið unnið að rásasmíði undir leiðsögn Steinars Þorvaldssonar, sem starfar við tækja- og hugbúnaðarþróun hjá Marel.

Þetta er í fjórða sinn sem lið frá Háskóla Íslands tekur þátt í Fomula Student keppninni, en frá upphafi hafa íslensku liðin lagt mikla áherslu á að hanna rafknúinn og umhverfisvænan bíl.

Bíllinn í ár, TS14, gengur til dæmis fyrir rafmagni og var gætt að því að nota umhverfisvænar aðferðir og efni við smíði hans.

Stefna ótrauð á flokk 1

Í Formula Student er keppt í tveimur flokkum. Í flokki 1 eru lið dæmd út frá bæði hönnun einstakra hluta bílsins sem og akstri hans á kappakstursbraut, en í flokki 2 kynna liðin hönnun og áætlanir sínar, en ekki er keppt í kappakstri.

Í fyrra var ákveðið að keppa í flokki 2 og hafnaði liðið þá í þriðja sæti af 25 liðum. Nú stefna hins vegar félagar í Team Spark ótrauðir á þátttöku í flokki 1 á Silverstone-brautinni og hafa því unnið hörðum höndum í allan vetur að smíði bílsins. Þau hafa meðal annars nýtt sér hönnunina sem færði þeim þriðja sætið í fyrra.

33 nemendur hafa komið að verkefninu en þeir koma úr vélaverkfræði, iðnaðarverkfræði, rafmagns- og tölvuverkfræði og hugbúnaðarverkfræði í Háskóla Íslands, ásamt nemendum úr vöruhönnun við LHÍ sem koma að hönnun á útliti skeljarinnar. 

Að lokinni afhjúpun bílsins sögðu félagar í Team Spark stuttlega frá verkefninu og helstu áskorunum sem tengdust hönnun bílsins. Þá fluttu einnig Ragnheiður Elín Árnadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Nótt Thorberg, markaðsstjóri Marels og fulltrúi bakhjarla Team Spark, og Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands, stutt ávörp.

Bíllinn TS14 var kynntur á Háskólatorgi í dag.
Bíllinn TS14 var kynntur á Háskólatorgi í dag. Árni Sæberg
Ragnheiður Björk Halldórsdóttir, liðsstjóri Team SPARK.
Ragnheiður Björk Halldórsdóttir, liðsstjóri Team SPARK.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert