Lítið miðar áfram í kjaradeilu sjúkraliða að sögn Kristínar Á. Guðmundsdóttur, formanns Félags sjúkraliða. Hún segir stöðuna vera þá sömu og þegar fundi lauk á ellefta tímanum í gærkvöldi.
Ótímabundið allsherjarverkfall sjúkraliða og félagsmanna SFR á hjúkrunarheimilum og stofnunum innan Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustuhefst klukkan átta í fyrramálið náist samningar ekki fyrir þann tíma.
Fundur hófst klukkan 9:15 í morgun og segir Kristín að nú sé verið að skoða réttindamálin sem enn eru ekki frágengin, þó ágætlega hafi miðað í viðræðum um þann þátt.
Gærkvöldið var hins vegar notað til þess að fara yfir launaliðinn og fengu sjúkraliðar þá í fyrsta skipti afhentar tölulegar upplýsingar til að notast við útreikning á mögulegum launahækkunum.
Hún vonast til þess að dagurinn leiði málin betur í ljós en er þó svartsýn á að viðræður klárist.