Sjúklingar fluttir fram og til baka

Sneiðmyndatæki
Sneiðmyndatæki mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Sneiðmyndatækið á Landspítalanum í Fossvogi bilaði í gær og er beðið varahlutar að utan til þess að viðgerð geti hafist. Á meðan þarf að flytja sjúklinga sem koma á bráðamóttöku yfir á Hringbraut, þurfi þeir á sneiðmyndatöku að halda. 8 mánuðir eru síðan tækið bilaði síðast, en ekki fékkst fjárveiting fyrir nýju.

Af þeim sem leita til Landspítala á Fossvogi þurfa að jafnaði um 40-50 manns sneiðmyndatöku á degi hverjum, að sögn Péturs H. Hannessonar yfirlækni geislagreiningar í Fossvogi. 

„Það eru ekki allt bráðatilfelli, en þetta kallar auðvitað á heilmikla sjúkraflutninga og er mjög slæm staða upp á öryggi þeirra sem eru bráðveikir og slasaðir. Þetta er mjög bagalegt,“ segir Pétur.

Nokkrir sjúklingar fluttir af gjörgæslu

Bilun sneiðmyndatækisins hefur áhrif sem smitast yfir á aðrar deildir, t.a.m. hefur þurft að fresta aðgerðum fram yfir helgi vegna aukins álags á sneiðmyndatækið á Hringbraut. Kristinn Sigvaldason yfirlæknir á gjörgæsludeild segir að þaðan hafi þurft að flytja nokkra sjúklinga fram og til baka milli Hringbrautar og Fossvogs, síðan bilunin kom upp í gær.

„Ef það er til dæmis höfuðslys þá er því einungis sinnt hér í Fossvogi svo þá þarf að flytja fólk yfir á Hringbraut í tölvusneiðmynd og svo til baka aftur. Þetta er ekki mjög þægilegt þar sem fólk kemur illa slasað eða alvarlega veikt,“ segir Kristinn. Æskilegt sé að fólk í slíkri stöðu verði fyrir sem minnstri röskun og hnjaski.

Forgangsmál að tryggja öryggi sjúklinga

Þegar bilun af þessu tagi kemur upp er virkjuð viðbragðsáætlun, í samvinnu við slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sem annast sjúkraflutninga. Bára Benediktsdóttir er mannauðsstjóri bráðasviðs og ritstjóri viðbragðsáætlunar Landspítala. Hún segir að vaktir séu þéttar á bráðamóttöku og á gjörgæslu séu menn í viðbragðsstöðu ef kalla þurfi þá til.

„Það er algjörlega númer eitt, tvö og þrjú að tryggja öryggi sjúklinga og við höfum ásamt slökkviliðinu farið yfir verklagið í kringum þá sjúklinga sem þurfa sneiðmynd. Það er óþægilegt að þurfa að flytja sjúklinga, en við gerum það og fáum aukamannskap til þess,“ segir Bára.

„Þannig að við teljum okkur vera búin að gera það sem við getum, en þetta er náttúrulega ofboðslega bagalegt að tækið skuli bila. Þetta er bara orðið gamalt tæki.“

Vandamálið að vera á tveimur stöðum

Myndgreining er lykileining á nútímasjúkrahúsi. Tölvusneiðmyndatækið í Fossvogi bilaði síðast í október í fyrra. Staðan varð sérstaklega krítísk þá því í kjölfarið bilaði einnig sneiðmyndatækið á Hringbraut og þurfti að bregðast við með því að senda bráðatilfelli í Orkuhúsið, til sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Sjá frétt mbl.is: Öll myndgreiningartæki biluð á spítalanum

Á bráðasjúkrahúsum af sömu stærðargráðu og Landspítali í Fossvogi þekkist vart að aðeins sé eitt myndgreiningartæki. Stóra vandamálið, að mati þeirra lækna sem mbl.is hefur rætt við, er það að Landspítalinn skuli vera á tveimur stöðum í borginni. Alltaf geti komið upp bilanir í flóknum tækjum og þá þurfi að vera annað til vara.

„Við værum náttúrulega ekki í þessari aðstöðu ef við værum á einum stað, í einum spítala. Því deildin er með tvö tæki, en á sitthvorum staðnum,“ segir Pétur. „Það var okkar mat að það þyrfti að kaupa varatæki og hafa tvö tæki hér. En það hefur ekki breyst, það fengust ekki fjármunir til að kaupa nýtt.“

Vonast er til þess að nauðsynlegur varahlutir í sneiðmyndatækið komi til landsins á mánudag og unnt verði að gera við það strax í byrjun næstu viku. Síðast var tækið bilað í viku.

Sjá einnig:

Sneiðmyndatækið komið í lag

Önnur tæki ofar á forgangslista Landspítalans

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Þorkell
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert