Sneiðmyndatækið er komið í lag

Tölvusneiðmyndatækið á röntgendeild Landspítalans.
Tölvusneiðmyndatækið á röntgendeild Landspítalans. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Starfsemi röntgendeildar á Landspítalanum í Fossvogi er nú aftur komin í eðlilegt horf, því í gærkvöldi tókst loks að gera við tölvusneiðmyndatæki sem bilaði á fimmtudaginn var.

Talsvert mikið var um sjúkraflutninga á meðan tækið var bilað, að sögn Péturs H. Hannessonar yfirlæknis geislagreininga og gengu þeir áfallalaust fyrir sig.

Líkt og síðast þegar sneiðmyndatækið bilaði, í október 2013, þá varði bilunin í þetta sinn í tæpa viku á meðan beðið var eftir varahlut sem senda þurfti að utan. Vonast var til þess að hann kæmi til landsins á mánudagsmorgun, en það frestaðist um tvo sólarhringa og kom hann fyrst til landsins um hádegisbil í gær, miðvikudag.

Að sögn Péturs var þá strax tekið til við viðgerð og komst tækið í lag um 18 leytið í gærkvöldi.

Nauðsynlegt greiningartæki slasaðra og sjúkra

Tölvusneiðmyndatækið er nauðsynlegt mörgum sem koma inn á bráðamóttöku spítalans alvarlega veikir eða slasaðir, t.a.m. til að greina höfuðáverka. Aðeins eitt slíkt tæki er í Fossvogi en annað á Hringbraut. Þetta þýðir að bili annað tækið, sem viðbúð er að gerist stundum með svo flókinn búnað, þá þarf að flytja sjúklinga á milli spítalanna til greiningar.

Til að anna þessu var aukabíll mannaður hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem annast sjúkraflutninga. Engu að síður var álagið mikið á sjúkraflutningamenn vegna þessa síðustu daga og nætur. Aðfaranótt miðvikudagsins voru um 50 sjúkraflutningar, sem er óvenjumikið, og síðdegis í gær voru sjúkraflutningar orðnir 60 á dagvaktinni.

Nýtt tölvusneiðmyndatæki kostar um 200 milljónir króna.

Sjá fyrri fréttir mbl.is:

Sneiðmyndatækið enn bilað

Sjúklingar fluttir fram og til baka

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert