Búið er að rýma stórt svæði umhverfis gríðarlegan eldsvoða sem kom upp í fatahreinsuninni Fönn í Skeifunni. Á bílastæði fyrir utan höfðu hundruð manna safnast saman til þess að fylgjast með eldinum. Þurfti lögreglan á aðstoð Securitas-manna að halda til þess að rýma svæðið. Annað slagið heyrast sprengingar úr húsinu.
Að sögn sjónarvotta hefur eldurinn breiðst hratt út og er hann búinn læsa sig í verslanir Griffils og Rekstrarlands. Búið er að brjóta rúður í Rekstrarlandi til þess að hleypa reyknum út. Ekki er sjáanlegur eldur í veitingastaðnum Spice.
Svo virðist sem eldurinn sé að ágerast fremur en hitt. Ekki er enn kominn eldur í verslunina Víði en eldurinn er mjög nærri. Dyr Víðis standa opnar en ekki er sála inni í versluninni. Þá er verslunin Örninn í samtengdu húsi. Búið er að rýma veitingastaðinn KFC, sem er ekki í samtengdu húsi.
Að minnsta kosti tveir slökkvibílar frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu eru á staðnum og dæla vatni úr tveimur áttum. Reykkafarar voru rétt í þessu að fara inn í Fönn. Markmiðið ku vera að hreinsa út spilliefni sem geta valdið frekari eldhættu. Mikill hiti er frá húsinu og eru starfsmenn frá Bílaleigu Akureyrar að færa alla bílaleigubíla sem eru á bílaplani við hlið Fannar.
Búið er að kalla til slökkvilið frá Keflavíkurflugvelli til aðstoðar í glímunni við eldsvoðann. Þá hefur lögreglan rýmt enn stærra svæði en gert var upphaflega vegna sprengihættu. Slökkviliðsmenn eru búnir að rífa upp þak Rekstrarlands og eru að búa sig undir að fara þar inn.
Fréttin er uppfærð.