„Við erum búin að kalla út allt okkar fólk; næturvaktirnar voru kallaðar út líka til að reyna að hafa hemil á öllum þarna. Við erum að reyna að halda fólki frá,“ segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is vegna stórbrunans í Skeifunni.
Aðspurður segir hann að engan hafi sakað. En hann biðlar til fólks að halda sig fjarri, „Við vitum náttúrulega ekki hvað er þarna inni - hvort eitthvað geti sprungið,“ segir Jóhann, en sjónvarvottar segjast hafa heyrt sprengingar.
Þá hafa björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu verið kallaðar út vegna brunans í Skeifunni 11. Lögregla óskaði eftir aðstoð við lokanir og gæslu á svæðinu.
Björninn, færanleg stjórnstöð svæðisstjórnar björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu, verður nýttur sem stjórnstöð aðgerða lögreglu og slökkviliðs.
Samkvæmt upplýsingum frá sjónvarvottum logar mikill eldur í húsi þar sem mörg fyrirtæki eru til húsa, m.a. Víðir, Griffill og Fatahreinsunin Fönn.
Eigandi Víðis, Eiríkur Sigurðsson, er á vettvangi og segir í samtali við mbl.is að eldurinn logi ekki í verslunni. Hann vonar besta en segist ekki hafa aðrar upplýsingar um málið aðrar en þær sem hann hafi úr fjölmiðlum og það sem hann sjái með berum augum.
Allt tiltækt lið slökkviliðsmanna er á vettvangi og sömu sögu er að segja um lögregluna. Enn er barist við eldinn og óvist hversu lengi sú barátta mun standa yfir. Eldurinn á níunda tímanum í kvöld.
Lögreglan sendi eftirfarandi tilkynningu til fjölmiðla í kvöld:
„Vegna stórbrunans í Skeifunni eru fjölmiðlar beðnir um að koma þeim skilaboðum til almennings að vegna sprengihættu þá er fólk beðið um að halda sig frá Skeifunni. Einnig er ekki síður mikilvægt að slökkvilið og lögregla fá starfsfrið við þetta erfiða verkefni.
Lögregla nýtur hjálpar björgunarsveita við að rýma Skeifuna og er fólk beðið um að sýna þessu skilning.“
Lögreglan tekur fram að það skapi óþarfa álag fyrir útkallsaðila að fólk komi á vettvang.