Hrauntungan sem teygir sig í norðaustur frá eldgosinu í Holuhrauni var í kvöld aðeins rúmlega einn kílómetra frá Jökulsá á Fjöllum. Ef ekki dregur úr eldgosinu í nótt bendir allt til þess að hraunið eigi eftir að renna út í ána á morgun og hafa þar með áhrif á rennsli hennar.
Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands birti í kvöld nýtt kort af nýja hrauninu. Hraunið hefur stækka mikið síðasta sólarhringinn enda hefur verið stöðugur kraftur í eldgosinu og mikil kvika sem kemur úr gossprungunni.
Nýjar gossprungur opnuðust suður af fyrstu gossprungunni í morgun. Ekki er sjáanlegt að þetta hafi haft merkjanleg áhrif á gossprunguna sem opnaðist 29. ágúst. Vísindamenn telja nú líklegra en áður að eldgosið eigi eftir að teygja sig nær Dyngjujökli.