Dæmi er um að sjúklingur sem missir af aðgerð í dag vegna verkfallsaðgerða lækna á lyflækningasviði Landspítalans hafi beðið í tvö ár eftir aðgerðinni. Allar skipulagðar valaðgerðir falla niður en meðal þeirra eru hjartaþræðingar og magaspeglanir.
Gert er ráð fyrir að álag muni aukast á spítalanum eftir því sem líður á daginn, þ.e. að erfitt verði að koma sjúklingum fyrir á deildum. Hingað til hefur starfssemi spítalans þó gengið vel, þrátt fyrir verkfallsaðgerðirnar.
Ekki fara allir læknar í Læknafélagi Íslands í verkfall á sama tíma. Á miðnætti í nótt lauk meðal annars verkfallsaðgerðum lækna á barna-, kvenna- og rannsóknarsviði Landspítalans og þá mættu læknar á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðsins aftur til vinnu í morgun.
Læknar á Sjúkrahúsinu á Akureyri og á lyflækningasviði Landspítalans tóku aftur á móti við keflinu á miðnætti og leggja niður störf til miðnættis annað kvöld
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hefur dagurinn gengið vel en þó hefur vissulega þurft að fresta mörgum aðgerðum. Ekki eru allir jafn ánægðir, enda hafa einhverjir þurft að bíða í marga mánuði eða jafnvel í tvö ár eftir aðgerð.
Gert er ráð fyrir að álagið muni aukast þegar líður á daginn en þá gæti orðið erfiðara að koma sjúklingum sem koma inn á spítalann í gegnum bráðamóttökuna á stofur á spítalanum.
Ekki er hægt að útskrifa alla sjúklinga þegar í stað og dvelja til að mynda um sextíu sjúklingar á spítalanum sem þurfa að komast á hjúkrunarheimili eða fá aukna aðstoða heima við svo hægt sé að útskrifa þá. Flestir þessara sjúklinga dvelja á Vífilsstöðum.