„Ég hef ekki heyrt um neitt slíkt,“ segir Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans og staðgengill forstjóra, í samtali við mbl.is spurður hvort bilun í tölvukerfi sjúkrahússins í gær hafi haft einhverjar alvarlegar afleiðingar. Þegar mbl.is ræddi við hann í gærkvöldi vissi hann ekki til þess en taldi of snemmt að segja til um það.
Jón Hilmar segir bilunina þannig ekki hafa haft neinar alvarlegar afleiðingar á þeim deildum Landspítalans þar sem veikustu sjúklingarnir liggja eða á bráðamóttökunni. Aðspurður tekur hann undir það að þetta hafi því farið betur en á horfðist.
„Við erum auðvitað með áætlanir til þess að bregðast við því þegar svona lagað gerist,“ segir Jón Himar. „En sannarlega höfðum við áhyggjur af þessu. Við náttúrulega vissum ekki hversu lengi þetta myndi vara.“
Frétt mbl.is: Þetta var alvarleg bilun
Frétt mbl.is: Tölvukerfin óstarfhæf í 1½ tíma
Frétt mbl.is: Tölvukerfi Landspítalans hrundi