Fulltrúar Félags prófessora skrifuðu undir kjarasamning í húsakynnum Ríkissáttasemjara skömmu fyrir klukkan 19:00 í kvöld. Fyrir vikið hefur boðuðu verkfalli prófessora í 1.-15. desember verið frestað. Samningurinn gildir til loka febrúar en strax eftir áramót hefst undirbúningur að samningi til lengri tíma að sögn Rúnars Vilhjálmssonar, formanns félagsins.
Rúnar segir að næsta skref sé að kynna stjórn Félags prófessora samninginn og ganga frá fyrirkomulagi á rafrænni atkvæðagreiðslu og kynningu á honum. Það ferli taki einhverja daga. „Ég er bjartsýnn á að félagsmenn samþykki samninginn. Ég tel að lengra hafi ekki verið hægt að ganga að þessu sinni enda stuttur samningur.“
Fengu sérstöðu prófessora viðurkennda
Kjarasamningurinn snúist í aðalatriðum um miðlægar launabreytingar í samræmi við það sem hafi verið að gerast í almennum kjarasamningum og kjarasamningum ríkisins. „Síðan erum við með stofnanahluta þar sem búið er að viðurkenna sérstöðu prófessora en launakerfi háskólanna var orðið mjög sérstakt og í raun úr sér gengið að því leyti að sérstaða prófessorstarfsins var ekki viðurkennt með eðlilegum hætti í launakerfinu.“
Þannig séu gerðar strangari kröfur til prófessora en til annarra kennara. Þeir gangist til dæmis undir strangan hæfnisdóm. „Í launakerfinu eins og það var orðið var ekki nægjanlegt tillit tekið til þeirrar sérstöðu. En hún er sem sagt viðurkennd í stofnanasamningnum núna og við vonum að það muni skila sér í bættum kjörum fyrir okkar félagsmenn en okkur þótti þessi viðurkenning mjög mikilvæg. Þetta samanlagt gerði það að verkum að við gætum samþykkt þetta enda samningurinn mjög stuttur. Þannig að ég treysti mér til þess að mæla með honum við okkar félagsmenn.“
Verkfallsboðunin leiddi til skilvirkari vinnu
Rúnar segir verkfallsboðunina hafa skipt sköpum í kjaraviðræðunum. „Við fengum ekki almennilega áheyrn og góða samningavinnu í gang fyrr en við samþykktum þessa verkfallsboðun. Þannig að hún skilaði sér í miklu skilvirkari vinnu við samningsborðið. Þetta var orðið mánaðalangt þóf. Allt í góðri vinsemd en án þess að skila nokkru.“ Þeim sem sé þó mest létt vegna niðurstöðunnar séu háskólanemendur.
„Sá hópur sem mest er létt á núna eru auðvitað nemendur okkar sem voru farnir að kvíða mjög framhaldinu því það var orðið stutt í prófin og helmingur prófanna hefði fallið niður hefði komið til verkfalls og óvíst hvenær þau yrðu haldin. Þessi óvissa var auðvitað farin að hafa veruleg áhrif á nemendur og við gerðum okkur auðvitað beggja vegna borðs grein fyrir því.“