Meirihluti velferðarnefndar Alþingis leggst gegn því að frumvarp um frjálsa sölu áfengis verði samþykkt. Báðir fulltrúar Framsóknarflokks skrifuðu undir nefndarálitið en enginn þriggja fulltrúa Sjálfstæðisflokks. Alls skrifa fimm nefndarmenn undir af níu manna nefnd.
Í álitinu segir að meirihluti velferðarnefndar leggist gegn því að frumvarpið verði að lögum vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem það muni hafa á heilbrigði og öryggi í samfélaginu og vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem aukið aðgengi að áfengi muni fyrirsjáanlega hafa á velferð barna.
„Við umfjöllun nefndarinnar um áhrif frumvarpsins á velferð barna kom fram að aukið aðgengi mundi ógna þeim góða árangri sem náðst hefur við að draga úr áfengisneyslu ungmenna. Bent var á að í stað sérþjálfaðs starfsfólks mundi starfsfólk í matvöruverslunum afgreiða áfengi og miðuðust aldursmörk starfsfólks við 18 ár. Hætt er við að það kunni að skapast þrýstingur á svo ungt starfsfólk frá jafnöldrum að selja þeim áfengi,“ segir í álitinu.
Einnig segir að með auknu aðgengi að áfengi muni neysla meðal ungmenna aukast sem og neysla forráðamanna barna. „Það mun hafa neikvæð áhrif á velferð barna en inngrip barnaverndaryfirvalda eru oft tengd áfengis- og vímuefnaneyslu barna eða forráðamanna þeirra. Einnig var bent á að SÁÁ telji að fjórða hvert barn eigi foreldri eða annan náinn aðstandanda sem er alkahólisti. Það eru um 22.000 börn. Þeim börnum mun fjölga ef frumvarpið verður að lögum.“
Þá er ennfremur á það bent að sænska lýðheilsustofnunin fól árið 2008 sænskum og alþjóðlegum sérfræðingum í áfengisrannsóknum að gera rannsókn á áhrifum þess fyrir sænskt samfélag ef ríkiseinokun á áfengissölu yrði afnumin og sala áfengis yrði leyfð í matvöruverslunum. „Niðurstöðurnar voru sláandi. Áfengisneysla mundi aukast um 37,4% og leiða til hærri dánartíðni, aukins ofbeldis, fjölgunar þeirra sem aka undir áhrifum áfengis og gríðarlegrar fjölgunar veikindadaga.“
Undir álitið skrifa Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis og fulltrúi Samfylkingarinnar, Þórunn Egilsdóttir, varaformaður nefndarinnar og fulltrúi Framsóknarflokksins, Guðbjartur Hannesson, fulltrúi Samfylkingarinnar, Páll Jóhann Pálsson, fulltrúi Framsóknarflokksins og Steinunn Þóra Árnadóttir, fulltrúi Vinstri grænna.
Hins vegar skrifuðu ekki undir álitið Björt Ólafsdóttir, varaformaður nefndarinnar og fulltrúi Bjartrar framtíðar, Ásmundur Friðriksson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Brynjar Níelsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins.