Allar aðalleiðir í grennd við höfuðborgarsvæðið eru lokaðar: Reykjanesbraut og Grindavíkurvegur, um Kjalarnes og Mosfellsheiði og eins frá Rauðavatni austur yfir Sandskeið, Hellisheiði og Þrengsli. Suðurstrandarvegur er einnig lokaður sem og vegurinn undir Hafnarfjalli
Mjög sjaldgæft er að allar leiðir út úr höfuðborginni séu lokaðar á sama tíma. Nú er bæði hvassvirðri og blint vegna úrkomu og aðstæður mjög slæmar. Þetta kemur fram í upplýsingum frá starfsmanni Vegagerðarinnar.
Gera má ráð fyrir að lokað verði í einhvern tíma. Margir ökumenn hafa samband við Vegagerðina í morgun.
Mjög hvasst er nú á höfuðborgarsvæðinu, skafrenningur og lélegt skyggni.
Búið er að loka veginum við Hafnarfjall en mjög hvasst er einnig á köflum í Borgarfirði. Stórhríð er á utanverðu Snæfellsnesi, ófært á Vatnaleið og þar fyrir vestan á norðanverðu nesinu, eins á Útnesvegi og Fróðárheiði. Annars éljar um mest-allt Vesturlandi og alls staðar er snjóþekja eða hálka.
Veður er einnig að versna á Vestfjörðum, stórhríð er á Klefaheiði, Mikladal og Hálfdáni - og vegur ófær. Annars staðar er snjóþekja eða hálka og vaxandi ofankoma og skafrenningur.
Það er snjóþekja og hálka á flestum vegum á Norðurlandi og víða skafrenningur eða ofankoma. Slæmt veður er á Öxnadalsheiði og mikill skafrenningur. Vegurinn um Dalsmynni er lokaður.
Á Austur- og Suðausturlandi er snjóþekja, hálka eða hálkublettir á velflestum vegum.
Skil vaxandi lægðar koma úr suðvestri og með henni hvassviðri eða stormur 15-23 m/s og snjókoma þegar kemur fram á morguninn. Blint verður og skafrenningur og nær veður hámarki suðvestan- og vestanlands laust eftir hádegi og hlýnar þá upp fyrir frostmark á láglendi. Að auki hviður á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli frá um kl. 12 til 15. Um norðan- og austanvert landið mun einnig hvessa um og upp úr miðjum degi með skafrenningskófi og ofankomu um tíma.
Lögreglumenn þurftu að aðstoða ökumenn á Kjalarnesi í morgun. Ökumenn hafa lent í vandræðum á svæði lögreglu á stöð 4 á höfuðborgarsvæðinu en það nær til Mosfellsbæjar, Grafarholts, Grafarvogs, Árbæjar, Norðlingaholts, Kjósarhrepps og Kjalarness.
Mjög blint er í efri byggðum höfuðborgarsvæðsins. Lögregla hvetur fólk til að vera ekki á ferðinni nema brýn þörf sé á.
Mbl.is óskar eftir myndum að óveðrinu. Sendið upplýsingar og mynd á netfrett@mbl.is