Myndbandið hér að ofan er alls ekki ætlað börnum eða viðkvæmum einstaklingum en í því sýna þau Hlíðar Berg, Indíana Ósk og Kormákur Andri iðju sem kalla mætti líkamsupphengingu. Líkamsupphenging fer þannig fram að einskonar krókar eru festir undir húð þess sem hyggst hanga og svo er viðkomandi hífður frá jörðinni.
Þessi sérstæða iðja hefur verið við lýði lengi vel og ku spretta frá frumbyggjum Norður-Ameríku. Hún barst hinsvegar fyrst hingað til lands fyrir rúmu ári síðan þegar sérfræðingur í slíkum upphengingum kom til landsins og kenndi Hlíðari Berg réttu handtökin.
Hlíðar er eini Íslendingurinn sem hefur þá kunnáttu sem þarf til líkamsupphenginga en að auki þarf sérstök tæki og tól til þess að fyllsta öryggis sé gætt. Fólk ætti undir engum kringumstæðum að reyna að leika slíkar hengingar eftir enda segir Hlíðar þær vera stórhættulegar sé rangt farið að.
Indíana Ósk er líklega sá Íslendingur sem hefur oftast hangið með þessum hætti en lengst hefur hún hangið í tvo klukkutíma. Hún tekur fram að þessu fylgi ekki kynferðisleg nautn og að henni finnist einfaldlega gaman að sveifla sér og snúa sér líkt og í rólu. Raunar virðast fæstir, ef einhverjir þeirra sem þetta stunda hér á landi, vera á höttunum eftir kynferðislegri útrás. Sumir hanga gleðinnar vegna líkt og Indíana, aðrir fá andlega útrás og sumir vilja bæta spennu í líf sitt.
Indíana viðurkennir að ákveðinn sársauki fylgi þegar pinnarnir sem halda króknum saman eru settir undir húðina. Hún segir athöfnina sjálfa þó ekki sársaukafulla þó svo að hún þurfi að „hita sig örlítið upp“ áður en hún er hífð frá jörðinni. Hún segir marga jákvæða í garð hangsins en að eins sé hún vön illkvittnislegum athugasemdum enda eigi margir erfitt með að skilja áhugamálið og eru því fljótir til að dæma.
Hingað til hefur hópurinn aðallega stundað líkamsupphengingarnar utandyra, í trjám og á brúm. Þau leita nú að húsnæði til þess að hanga í að vetrarlagi enda setur kuldinn strik í reikninginn þegar kemur að þessu óvenjulega áhugamáli.
Aftur varar mbl.is við meðfylgjandi myndskeiði og minnir á að fólk ætti undir engum kringumstæðum að reyna að leika það eftir sem þar fer fram.