Búa vésleðamanninn undir flutning

mbl.is/Ómar

Björgunarsveitarmenn vinna nú að því að flytja vélsleðamann sem slasaðist í Hlíðarfjalli við Akureyri síðdegis. Maðurinn er með meðvitund en hann er töluvert slasaður, hlaut m.a. beinbrot. Verið er að skoða hvernig best er að koma honum niður, en þyrla Landhelgisgæslunnar er í viðbragsstöðu.

Björgunarsveitir úr Eyjafirði fengu útkall eftir að tilkynning barst um manninn í Litlahnjúki, sem er nyrst í Hlíðarfjalli, kl. 16:12 í dag. 

Reimar Viðarsson, sem er aðgerðastjórn björgunarsveita í Eyjafirði, segir í samtali við mbl.is, að björgunarsveitarmenn séu nú hjá manninum og verið sé að búa hann til flutnings. Ekki er mikill snjór í fjallinu og svæðið grýtt. Þar af leiðandi eru leiðir niður erfiðar fyrir hinn slasaða. Það kemur til greina að flytja hann með snjóbíl en einnig hefur verið haft samband við Gæsluna og óskað eftir þyrlu til að flytja manninn á sjúkrahús.

Maðurinn sem slasaðist var ásamt fimm öðrum í vélsleðaferð í fjallinu. Talið er að hann hafi ekið á grjót með þeim afleiðingum að hann féll og slasaðist. Hann er ekki í lífshættu.

Vélsleðamaður slasaðist

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert