Hálf milljón hefur horft á hamborgarann

Nú er hægt að dást af hamborgaranum í beinni.
Nú er hægt að dást af hamborgaranum í beinni. mbl.is/Kristinn

Síðasti McDonald‘s hamborgari Íslands hefur vakið gríðarlega athygli um heim allan frá því mbl.is sagði fyrst frá tilvist hans fyrir tæpum tveimur vikum. Fjölmargir erlendir fréttamiðlar tóku fréttina upp á eigin arma og í gær prýddi hún forsíðu ferðavefs Daily mail sem er ein mest lesna vefsíða heims.

Aðalheiður Ýr Gestsdóttir, rekstrarstjóri Bus Hostel sem hýsir gripinn, segir aukinn áhuga á hostelinu vel merkjanlegan. Í síðustu viku var sett upp vefmyndavél sem sýnir hamborgarann rotna í rauntíma og eru heimsóknir á vefsíður Bus Hostel nú komnar vel yfir 500 þúsund.

„Þetta byrjaði strax í um 40.000 heimsóknum á dag, í gær voru þær 108.000 og í dag eru þær þegar orðnar 210.000. Það er því mjög líklegt að þær fari vel yfir 300.000 bara í dag og má segja að það sé einskonar „hockey stick“ vöxtur í gangi,“ segir Aðalheiður

Aðalheiður og félagar fylgjast náið með umferðinni um síðuna og ljóst er að sagan af hamborgaranum góða hefur farið víða.

„Við notum Google Analytics og sjáum hvaðan og hve margir gestir eru á síðunni okkar á hverjum tíma. Þessa stundina eru flestir frá Rússlandi, Brasilíu, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Úkraínu, Serbíu og Frakklandi. Þetta breytist svo þegar líður á daginn og Asía, Bandaríkin og Suður-Ameríka taka yfir kvöldið og nóttina,“ segir Aðalheiður. Hún segir eins að gaman sé að sjá frá hvaða síðum umferðin komi og þar fari Twitter fremst í flokki.

„Þar sem þetta er alveg nýtilkomið, vélin nýkomin í loftið, vitum við ekki hvaða áhrif þetta hefur til lengri tíma á síðuna okkar og bókanir á gistingu hjá okkur,“ segir Aðalheiður en hún segir líklegt að Bus Hostel færist ofar á leitarvélum fyrir vikið.

„Vonandi færir þetta okkur líka fleiri gesti í Skógarhlíðina sem vilja berja borgarann augum í eigin persónu. Á tímum internetsins og samfélagsmiðla er sífellt verið að reyna að finna upp á einhverju sniðugu og sérstöku sem dregur að sér athygli og okkur sýnist morgunljóst að þetta uppátæki hefur svo sannarlega virkað til að vekja athygli á Íslandi og okkar frábæra hosteli.“

Síðasti McDonald's hamborgarinn til sýnis

Aðalheiður er að vonum ánægð með árangurinn.
Aðalheiður er að vonum ánægð með árangurinn. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert