Gönguskíðamennirnir tveir sem voru sóttir á Vatnajökul í gær greiddu fyrir björgunina en ætla að gera kröfu á tryggingafélög sín eftir að heim er komið. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Þeir voru miður sín yfir því að hafa virt varnaðarorð björgunarmanna að vettugi.
Eins og komið hefur fram neituðu mennirnir að fara með björgunarsveitarmönnum til byggða á þriðjudag þegar einn félagi þeirra var sóttur veikur á jökulinn.
Friðrik Jónas Friðriksson, formaður Björgunarfélags Hornafjarðar, sagði í Morgunblaðinu í dag að rætt hefði verið við mennina á þriðjudag og þeim gerð grein fyrir versnandi veðri og beðnir um að koma niður af jöklinum með björgunarmönnunum.
„Þeir neituðu að koma niður af jöklinum og eins kom ekki til greina af þeirra hálfu að færa sig neðar,“ sagði Friðrik.
Hörður Már Harðarson, formaður Landsbjargar, sagði í kvöldfréttunum að það hafi ekki gerst áður að menn í raunverulegri hættu hafi greitt fyrir aðstoð björgunarsveita. Það sé þó mikil pressa á það í samfélaginu að opna umræðu um þau mál. Fólk hafi þó stundum borgað ef það hafi farið gegn fyrirmælum um lokanir eða fengið aðstoð við bifreiðar eða annað án þess að nein hætta væri á ferðum.
Frétt mbl.is: Neituðu að koma til byggða