Best að festa trampólínin

Búast má við talsverðri rigningu og leysingu á Vestfjörðum og Ströndum næsta sólarhringinn. Einnig má reikna með snörpum vindhviðum á norðanverðu Snæfellsnesi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Því er varað við akstri með aftanívagn á þeim slóðum. Þar að auki skal bent á að í þeim vindi sem búist er við á landinu í dag geta lausir munir fokið, t.d. trampólín, segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.

Sjá veðurvef mbl.is. 

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar sendir frá sér eftirfarandi viðvörun vegna veðursins:

Hún er heldur snarpari suðvestur-vindröstin sem er á leið austur yfir land í kvöld og nótt. Spáð er stormi um norðvestanvert landið og nær vindur hámarki í kvöld. Reiknað er með vindhviðum 20-30 m/s á norðanverðu Snæfellsnesi fram á kvöld. Eins á Ströndum, í Steingrímsfirði og norður í Árneshrepp. Gera má ráð fyrir hörðum hnútum 30-40 m/s, s.s. í Skagafirði á milli Varmahlíðar og Sauðárkróks, sem og í Fljótum og á Siglufjarðarvegi. Einnig snarpir strengir þvert á veg norður frá Akureyri og út með Eyjafirði að vestanverðu. Lægir smámsaman í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert