„Nágrannahúsið hvarf í moldarskýi“

Dæld kom í þakið auk þess sem trampólínið eyðilagðist.
Dæld kom í þakið auk þess sem trampólínið eyðilagðist. Mynd/Linda Ólafsdóttir

„Mig grunaði aldrei að þetta gæti gerst þegar ég sá veðrið í morgun,“ segir Linda Ólafsdóttir, íbúi á Akureyri en trampólínið hennar fór á flug í rokinu á Norðurlandi í dag. 

Sjá frétt mbl.is: Best að festa trampólínin

Minnstu mátti muna að verr færi. „Korteri áður en þetta gerðist eru fjórir krakkar úti að hoppa. Krakkarnir voru úti á peysunum og ekkert að veðrinu. Svo fyrir tilviljun fer eitt barnið heim og hin koma inn. Síðan stend ég í símanum og horfi út um gluggann, einmitt á trampólínið þegar ég sé netið leggjast á hliðina. Ég hugsaði að það væri best að fara út og losa það niður,“ segir Linda en hafði engan tíma til þess að bregðast við. 

„Trampólínið kom fjúkandi í áttina að mér“

„Þá allt í einu þyrlast upp mold og nágrannahúsið hverfur í stóru moldarskýi. Því næst kemur trampólínið fjúkandi í áttina að mér. Ég hélt að stangirnar væru á leið inn um gluggann en það gerðist heppilega ekki.“

Að sögn Lindu kom smá dæld í þakið auk þess sem trampólínið eyðilagðist. „Það var svo alveg rólegt veður eftir vindhviðuna. Fólk kom og hjálpaði mér að ná niður trampólíninu og við hlógum að því hvað þetta hafi verið óraunverulegt. En eftir hádegi hefur vindurinn hægt og rólega verið að aukast,“ segir Linda en óhappið átti sér stað stuttu fyrir hádegi. 

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar sendir frá sér eftirfarandi viðvörun vegna veðursins:

Hún er heldur snarpari suðvestur-vindröstin sem er á leið austur yfir land í kvöld og nótt. Spáð er stormi um norðvestanvert landið og nær vindur hámarki í kvöld. Reiknað er með vindhviðum 20-30 m/s á norðanverðu Snæfellsnesi fram á kvöld. Eins á Ströndum, í Steingrímsfirði og norður í Árneshrepp. Gera má ráð fyrir hörðum hnútum 30-40 m/s, s.s. í Skagafirði á milli Varmahlíðar og Sauðárkróks, sem og í Fljótum og á Siglufjarðarvegi. Einnig snarpir strengir þvert á veg norður frá Akureyri og út með Eyjafirði að vestanverðu. Lægir smámsaman í nótt.

Linda Ólafsdóttir, íbúi á Akureyri.
Linda Ólafsdóttir, íbúi á Akureyri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert