Von á breytingum frá Isavia

Eyjólfur Pálsson hefur áður lýst áhyggjum sínum af ramtíð íslenskrar …
Eyjólfur Pálsson hefur áður lýst áhyggjum sínum af ramtíð íslenskrar hönnunar í flugstöðinni. Hann segir nú von á breytingum af hálfu Isavia. mbl.is/Golli

Eyjólfur Pálsson, forstjóri Epal, segir líklegt að breytingar geti orðið á hvernig íslensk hönnun og varningur er kynntur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hann geti þó ekki tjáð sig nákvæmlega um hvers konar breyting geti átt sér stað. Í þættinum Á Sprengisandi ræddi Eyjólfur málefni íslenskrar hönnunar í flugstöðinni og þá ákvörðun að framlengja ekki samning við fyrirtækið núna í ár.

Þá sagði hann í viðtalinu að hann ætti von á því að Isavia myndi gera breytingar á þessu fyrirkomulagi á næstunni, en að hann hafi rætt við forsvarsmenn fyrirtækisins. „Sumt getur maður ekki sagt því það er á rosalega viðkvæmu stigi,“ segir Eyjólfur í samtali við mbl.is.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, deildi frétt mbl.is um málið í dag, en þar tók hún undir orð Eyjólfs að málið hafi verið mistök af hálfu Isavia. „Isavia er búið að fá einstakt tækifæri til að leysa þetta mál núna,“ segir Eyjólfur og bendir á að eftir viðbrögð ráðherra og ummæli sín geti þeir náð sér í rosalega jákvæða umfjöllun.

Aðspurður nánar út í orð hans á Sprengisandi og hvort að líklegt sé að breytingar verði á ákvörðun Isavia sagðist hann telja það „mjög líklegt“ og bætti við „batnandi mönnum er best að lifa.“

Hann segir málið þó ekki snúast um hans verslun, því það snúist um íslenska hönnun og sölu og kynningu á henni fyrir ferðamönnum. „Ég sé ekki þann aðila sem er betri en við, en ef hann er til þá er það allt í lagi,“ segir Eyjólfur.

Tek undir hvert orð hjá Eyjólfi og það var fróðlegt að hlusta á viðtalið við hann. Það verður athyglisvert að sjá framhaldið í flugstöðinni - mér fannst Eyjólfur vera að boða fréttir í þeim efnum

Posted by Ragnheiður Elín Árnadóttir on Sunday, 23 August 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka