„Mjög góðar undirtektir“

„Þetta eru að okkar áliti mjög góðar undirtektir í ljósi þess að við höfum ekkert kynnt þetta formlega,“ segir Jórlaug Heimisdóttir, verkefnisstjóri hjá Landlæknisembættinu, í samtali við mbl.is en samtals hafa 21.298 einstaklingar skráð sig í gagnagrunn embættisins þar sem fólk getur tekið afstöðu til þess hvort það vilji gefa líffæri við andlát eða ekki. Þar af hafa yfir 99% skráð sig sem líffæragjafar en gagnagrunnurinn var settur á laggirnar fyrir ári síðan.

Jórlaug segir að skráningar í gagnagrunninn hafi tekið kippi upp á við þegar líffæragjöf hafi verið í umræðunni. Þá bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Það benti til þess að aukin umfjöllun væri til þess fallin að stuðla að auknum áhuga á meðal almennings að gerast líffæragjafar. Hún bendir þó á að ekki sé nauðsynlegt að skrá sig í gagnagrunninn til þess. Margir gangi þess í stað með líffæragjafakort á sér og aðrir hafa greint nánum ættingjum frá vilja sínum.

Engar tölur um þá sem ganga með kort

„Umræða hefur þannig greinilega áhrif. Hins vegar hefur engin formleg kynning farið fram sem er eitthvað sem þarf að taka til skoðunar. Það hentar hins vegar ekki endilega öllum að skrá sig í gagnagrunn. Það er þannig miklu meiri umferð um vefsíðuna þar sem hægt er að skrá sig en sem nemur skráningum. Fólk þarf hugsanlega í sumum tilfellum að fara nokkrum sinnum á síðuna áður en það ákveður að skrá sig í grunninn,“ segir Jórlaug.

Hins vegar þjóni vefsíðan einnig hlutverki upplýsingasíðu um líffæragjafir þar sem meðal annars er svarað algengum spurningum um þær. Eðlilegt sé að fólk vilji leita sér upplýsinga í tengslum við mögulega ákvörðun í þessum efnum. Til dæmis gæti vel verið að fólk hafi skoðað vefsíðuna og í kjölfarið kosið að fara aðrar leiðir eins og að ganga með líffæragjafakort eða láta nána ættingja vita um vilja sinn. Engar tölur væri hins vegar til yfir fjölda þeirra sem það gerðu.

Erfitt fyrir ættingja að taka ákvörðunina

„Það er mjög mikilvægt að fólk skilji ekki ákvörðunina um líffæragjöf eftir hjá ættingjum, hvort sem vilji er til þess að gefa líffæri eða ekki. Ættingjar hafa sagt að þetta sé gríðarlega erfið ákvörðun að taka fyrir látna ástvini þegar ekki liggur fyrir hvað þeir sjálfir hafa viljað. Ekki síst þar sem spurningin er borin upp á mjög erfiðri stundu,“ segir Jórlaug ennfremur.

Spurð um aldur þeirra sem hafi skráð sig í gagnagrunninn segir Jórlaug að 60% þeirra séu á aldrinum 20-40. Það komi heim og saman við aðrar upplýsingar sem benda til þess að yngra fólk sé mun opnara fyrir líffæragjöf og skráningu í grunninn. Þá séu konur einnig líklegri til þess að skrá sig en 2/3 þeirra sem hafa skráð sig eru konur. Þá velti margir eldri einstaklingar fyrir sér hvort þeir séu orðnir of gamlir til að gefa líffæri en það geti allir gefið líffæri sín.

Vefsíða Landlæknisembættisins um líffæragjöf

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert