Hefur ferðast um heiminn í fimm ár

Ferðamaðurinn skrautlegi sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins í gær er fundinn. Maðurinn heitir Akasha og er mikill heimshornaflakkari frá New York-ríki í Bandaríkjunum, en hann hefur verið á faraldsfæti meira eða minna undanfarin fimm ár. Hann svaf í tjaldi í nótt og hyggst gera það næstu nætur, en hann á ekki bókað flug frá landinu heldur hyggst fara þegar honum hentar.

Frétt mbl.is: Fjalla-Eyvindur í miðborginni?

„Einhver kona sagði mér að ég væri á forsíðunni og ég trúði henni ekki,“ segir Akasha, en ljósmyndari mbl.is og Morgunblaðsins hafði aftur upp á honum í dag. „Ég fór hins vegar inn á kaffihús og þar sá ég þetta,“ segir Akasha og hlær.

Hann, eins og svo margir aðrir ferðamenn, er hingað kominn til að skoða landið. „Eiginlega allt sem er hérna. Það er reyndar dálítið fyndið að ljósmyndarinn náði mér hérna á öðrum degi á landinu, ég hef ekki einu sinni komist út úr borginni,“ segir Akasha.

„Ég hugsa að ég verði hérna alveg þangað til mig langar að fara eitthvað annað.“ Hann er nýkominn frá New York til landsins, en þar áður bjó hann um tíma í Finnlandi og Tókýó í Japan um hríð. „Ég fer eiginlega hvert sem mig langar til að fara,“ segir hann þegar blaðamaður spyr hvort hann dvelji að jafnaði lengi á hverjum stað.

Bara með iPod og síma

Af myndum af Akasha að dæma virðist hann vera sjálfum sér ansi nógur. „Fyrir utan iPodinn og símann þá er ég ekki með nein raftæki á mér,“ segir hann. Hann segist þar að auki sofa utandyra. „Í nótt var ískalt,“ segir hann, „en það var í lagi. Ég er búinn fyrir vetur, með tjald til að tjalda í snjó og vetrarsvefnpoka, auk þess sem fötin mín eru öll búin til úr náttúrulegum efnum, ull og feldur. Það heldur best á manni hita,“ segir hann.

Hann segist vera mjög meðvitaður um að hann líti ekki út eins og hinn hefðbundni ferðamaður, sem hann segir koma til landsins í viku, fara í nokkrar rútuferðir og segir svo, með húsmæðralegum Long Island hreim, „já, ég er búinn með Ísland,“ og hlær dátt.

„Það er ekki þannig sem þú tengist umhverfinu. Ég vil anda að mér landinu og umhverfinu,“ segir Akasha. Fyrsta reynsla hans af því að tjalda og sofa úti að vetri var í Klettafjöllunum í Bandaríkjunum. Þar var hann ásamt nokkrum öðrum sem voru í sömu erindagjörðum og hann, að kynnast náttúrunni, en þar kynntist hann fólki sem enn þann dag í dag er jafnnáðið honum og fjölskyldan hans.

„Þar er fullt af fólki að gera mjög svipaða hluti - ferðast og gera ótrúlega hluti.“ Hann segir að á þeim fimm árum sem hann hefur verið á flakki hafi ferðastíll hans breyst nokkuð. „Þetta er alltaf að breytast. Ég borða til dæmis minna kjöt og er meira sjálfum mér nógur,“ segir hann.

Á myndinni sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins má sjá vígalega gæru eða feld í farangri Akasha. „Þetta er yfirhöfnin mín. Þetta er nepalskur lambafeldur sem ég klæðist yfirleitt. Í nótt lagði ég þetta yfir svefnpokann minn, það var svo kalt,“ segir hann. Blaðamaður bendir honum góðlega á að það eigi enn eftir að kólna töluvert þennan veturinn. „Ég veit!“ svarar hann og hlær. „Ég var að hugsa um að ferðast um Norðurlandið, en ég held ég láti suðrið og austrið duga. Ég gæti alveg farið norður en ég vil vera þar sem er hlýjast, þó svo það sé ekki beint hlýtt,“ segir hann. Hann hugsaði sé þó gott til glóðarinnar þegar hann kynnti sér hversu auðvelt og ódýrt það væri að fara í hlýja sundlaug um nánast landið allt.

„Þegar ég var í Japan fann ég fullt af heitum laugum, bæði úti í náttúrunni og þar sem þú borgaðir fyrir aðgang, en líka þar sem þú hreinlega þreifaðir á jörðinni og grófst upp þína eigin laug. Það var magnað,“ segir Akasha.

Hann segir mjög algengt að hann sé spurður út í hvernig hann fjármagni ferðalögin sín. „Ég veit það ekki, ég get ekki útskýrt kraftaverk. Líf mitt hefur bara þróast svona.“

Ákvað að fara þegar hann sá heimilislaust fólk

Hann tók ákvörðun um að yfirgefa heim efnishyggjunnar þegar hann vann á kaffihúsi í New York. „Mig hefur langað að ferðast alla ævi, alveg frá því ég var krakki. Ég man eftir því þegar ég var að vinna á kaffihúsi í New York og var örþreyttur og skildi ekki tilganginn með því að vinna fyrir peningum með þessum hætti. Svo sá ég heimilislaust fólk á götum úti sem var svangt og öllum var sama um. Þrátt fyrir alla þá peninga sem eru í umferð og hluti sem hægt er að kaupa þá sá ég að það skipti ekki nærri því jafnmiklu máli og ást og að vera trúr sjálfum þér og meta lífið fyrir það sem það er,“ segir Akasha. „Þannig að ég hugsaði: Ég verð að komast í burtu, ég get ekki gert þetta lengur.“

Sem hann og gerði. Á árdögum ferðalaga hans tók hann mikið af ljósmyndum og birti á ýmsum samfélagsmiðlum. En eins og oft vill verða þá segir Akasha að myndatakan og birtingin hafi fljótlega tekið yfir af upplifuninni. Þá hætti hann að birta myndir, en tekur nú eingöngu myndir á símann sinn fyrir sjálfan sig og fjölskyldu, sem býr í New York-ríki. Hann segir foreldra styðja hann 100% í þeirri ákvörðun hans að ferðast um heiminn. „Foreldrar mínir elska mig mikið,“ segir hann og hlær. „Þau eru frábær, þau eru alvöru foreldrar,“ segir hann, en akkúrat þegar ljósmyndari mbl.is gekk upp að honum þá var hann að senda mömmu sinni SMS-skilaboð og láta hana vita að allt væri í góðu hjá honum.

Akasha segist hafa tekið mjög vel eftir því þegar hann kom til Reykjavíkur að allir ferðamennirnir í borginni líta eins úr. „Eins og H&M múndering í mismunandi litum,“ segir hann. Hann segir að heimamaður hafi sagt henni að undanfarin fá ár hafi borgin breyst mikið og það væri henni ekki gleðiefni. „Ég skildi hana mjög vel, þetta er mjög áberandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert