Kæra leka Landspítalans

Landspítalinn er sakaður um að hafa lekið upplýsingum um hjóninn …
Landspítalinn er sakaður um að hafa lekið upplýsingum um hjóninn til Útlendingastofnunar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lögmaður ungra hjóna sem ættuð eru frá Víetnam segir að þau muni að öllum líkindum kæra Landspítalann til lögreglu vegna leka á persónuupplýsingum um þau. Útlendingastofnun hefur synjað konunni um varanlegt landvistarleyfi, meðal annars vegna upplýsinga sem virðast hafa komið frá spítalanum.

Í samtali við fréttastofu RÚV segir lögmaður hjónanna að í gögnum máls þeirra hjá Útlendingastofnun komi fram að upplýsingar hafi borist í símtali frá Landspítalanum um háttalag þeirra. Útlendingastofnun telur að hjónaband þeirra hafi aðeins verið til málamynda og byggir það meðal annars á myndbandsupptöku úr brúðkaupi þeirra.

„Þeirra eina tilkynningaskylda er við barnavernd, ef grunur leikur á að eitthvað sé ekki í lagi. Þannig að svo virðist sem miðlun upplýsinganna frá Landspítalanum til Útlendingastofnunar hafi verið ólögmæt í alla staði. Þar með lít ég svo á að Útlendingastofnun hafi verið með öllu óheimilt að byggja á þessum upplýsingum. Hvað þá að senda þau áfram í bréfi til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Björg Valgeirsdóttir, lögmaður konunnar, við RÚV.

Í skriflegu svari Landspítalans til fréttastofunnar kom fram að málið sé til skoðunar og það sé litið alvarlegum augum ef rétt reynist.

Frétt RÚV um mál hjónanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert