„Við höfum haft samstarfssamning við björgunarsveitina eins og önnur félagasamtök í Vogum þar sem kveðið er á um gagnkvæmar skyldur, mikilvægi starfsemi félagsins fyrir sveitarfélagið og þar fram eftir götunum. Svona almenns eðlis. Þessi samningur sem ég um ræðir við björgunarsveitina er runninn út og viðræður hafa staðið yfir um endurnýjun hans.“
Þetta segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga, í samtali við mbl.is, en Björgunarsveitin Skyggnir er ósátt við samskipti sín við sveitarfélagið. Telur björgunarsveitin að Vogar vilji í raun nýta björgunarsveitina sem ódýrt vinnuafl skiptum fyrir styrk frá bænum. Fyrir vikið sé ekki í raun um styrk að ræða heldur kaup á þjónustu- og vörum.
Fjárhæðin hækkuð um 500 þúsund krónur
Sveitarfélagið Vogar er hins vegar ekki sammála þessari sýn á málin. Ásgeir segir að fyrir það fyrsta hafi verið ákveðið á síðasta ári að hækka styrkfjárhæðina um 500 þúsund krónur upp í rúmlega tvær milljónir. Björgunarsveitin hafi ennfremur fyrir þá hækkun verið eina félagið sem ekki hafi þurft að þola lækkun frá árinu 2014. Hækkun hafi samt verið ákveðin.
Frétt mbl.is: Björgunarsveitin ódýrt vinnuafl?
Tillaga hafi verið lögð fram af hálfu bæjaryfirvalda í haust að miðað yrði við sömu upphæð á þessu ári. Sveitarfélagið hafi jafnfram lagt til að ekki yrði keypt af björgunarsveitinni flugeldasýning á þrettándanum heldur yrði þeim peningum breytt í styrk til sveitarinnar. Með öðrum orðum hafi sveitarfélagið ákveðið að flugeldasýningin yrði ekki haldin.
Einbeiti kröftunum að því að vinna saman
Viðbrögð björgunarsveitarinnar hafi verið að hafna þessu. „Þessu til viðbótar gerðum við lauslega könnun á því hvernig sveitarfélögin í kringum okkur væru að styðja við sínar björgunarsveitir og hvers væri á móti ætlast af þeim verkefnalega séð. Við gátum ekki betur séð eftir þá samantekt en að við værum bara að gera þokkalega vel við okkar björgunarsveit.“
Ásgeir segist hafa margítrekað það við formann bjorgunarsveitarinnar að honum þyki dapurt að ekki getið náðst samkomulag um samstarf. „Þetta er bara lítil sveitarfélag og hér þurfa menn að einbeita kröftum sínum að því að vinna saman í stað þess að það ríki sundrung. Ég held að innst inni séu allir þeirrar skoðunar að það eigi að vera samstarfssamningur á milli sveitarfélagsins og björgunarsveitarinnar rétt eins og við íþróttafélagið, ungmennafélagið og önnur félög.“