Segja pólitískan tilgang að baki

Vogar á Vatnsleysuströnd.
Vogar á Vatnsleysuströnd. Ljósmynd/Vogar

Frístunda- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Voga afgreiddi í maí 2014 frá sér drög að samningi við Björgunarsveitina Skyggni til afgreiðslu í bæjarráði. Innihéldu drögin viðaukasamning þar sem kveðið var á um „styrkupphæðir“ en eftir langa mæðu var niðurstaðan sú að styrkur ársins 2015 yrði 2.060.000 krónur.

Kemur þetta fram í yfirlýsingu frá bæjarráði Sveitarfélagsins Voga. Segir þar einnig að sá skilningur hafi verið uppi að styrkurinn tæki til flugeldasýningar á þrettándann, gæslu og flugeldasýningar á fjölskyldudögum, umsjón með áramótabrennu og niðurfellingar fasteignagjalda.

Nokkuð hefur verið fjallað um málið á mbl.is þar sem björgunarsveitin telur að Vogar vilji í raun nýta björg­un­ar­sveit­ina sem ódýrt vinnu­afl í skipt­um fyr­ir styrk frá bæn­um. Fyr­ir vikið sé ekki í raun um styrk að ræða held­ur kaup á þjón­ustu- og vör­um.

Upphæðin sögð ekki nógu há

„Við vinnu vegna fjárhagsáætlunar ársins 2016 var ákveðið að setja kr. 2.060.000. - sem framlag til björgunarsveitarinnar og bæjarstjóra falið að ganga til samninga þar að lútandi, en viðbrögð björgunarsveitarinnar voru þau að styrkupphæðin væri ekki nógu há miðað við vinnuframlag sveitarinnar.

Nýtt tilboð til björgunarsveitarinnar var að upphæðin yrði óbreytt, en ekki yrði um flugeldasýningu að ræða á þrettándann, og þannig hækkaði beinn peningastyrkur til björgunarsveitarinnar um sem nemur andvirði flugeldasýningarinnar eða kr. 400.000. - þar sem formaður Skyggnis hefur margoft lýst því yfir að styrkupphæðir vegna sýninganna sé einungis fyrir kostnaði,“ segir í yfirlýsingu bæjarráðs.

„Formaður björgunarsveitarinnar hefur látið hafa eftir sér að þeir séu þreyttir á að vera notaðir sem ódýrt vinnuafl, og er rétt að benda á að bæði kvenfélagið í sveitarfélaginu og Lionsklúbburinn hafa staðið að jólaballi, þrettándaskemmtun og brennu auk þess að taka þátt í fjölskyldudögum án þess að hafa farið fram á eða fengið styrki vegna þess.“

Formaður Skyggnis einnig kjörinn fulltrúi

„Samstarf sveitarfélagsins og björgunarsveitarinnar hefur til þessa gengið vel og án hnökra þar til niðurstöður síðustu sveitarstjórnakosninga lágu fyrir. Formaður sveitarinnar, Kristinn Björgvinsson, virðist ekki hafa látið þess getið við fjölmiðla að hann var formaður bæjarráðs frá október 2011 til loka kjörtímabilsins. Þann tíma virðist björgunarsveitin sátt við framlag sveitarsjóðs þrátt fyrir að það væri umtalsvert lægra en nú er um að ræða þ.e. 1.395.000 árið 2012 og 830.000. árið 2013.

Ekki mun öllum kunnugt að Kristinn Björgvinsson er kjörinn bæjarfulltrúi og áheyrnarfulltrúi í bæjarráði Sveitarfélagsins Voga, enda örugglega ekki á allra vitorði þar sem hann hefur ekki séð sér fært að mæta á einn einasta fund bæjarstjórnar eða bæjarráðs frá upphafi yfirstandandi kjörtímabils og afstaða formanns björgunarsveitarinnar verið sveitarfélaginu afar andsnúin á sama tíma.

Niðurstaðan hlýtur að vera að bæjarfulltrúinn Kristinn Björgvinsson sé að brúka Kristinn Björgvinsson formann Bjsv. Skyggnis í afar annarlegum pólitískum tilgangi.
Það er ómetanlegt hverju samfélagi að í þeim starfi öflug félagasamtök og ekki síst öflug björgunarsveit og er það einlægur vilji okkar að á komist eðlileg samskipti og samningur milli Bjsv. Skyggnis og Sveitarfélagsins Voga.“

Undir yfirlýsinguna rita, fyrir hönd bæjarráðs Voga, Bergur Álfþórsson, Björn Sæbjörnsson og Ingþór Guðmundsson.

Fyrri fréttir mbl.is:

Telja sig gera vel við björgunarsveitina

Björgunarsveitin ódýrt vinnuafl?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert