Bergvin Oddsson fyrrverandi formaður Blindrafélagsins segir í samtali við mbl.is að hann muni bjóða sig fram til embættis formanns félagsins á aðalfundi sem haldinn verður í mars.
Að öðru leyti vill Bergvin ekki tjá sig að sinni um skýrslu sannleiksnefndar sem félagið setti á laggirnar eftir að tillaga um vantraust gagnvart Bergvini var samþykkt í september síðastliðnum. Var hann settur af í kjölfarið.
Bergvin var síðast kosinn formaður Blindrafélagsins á aðalfundi í maí árið 2014. Var hann kjörinn með eins atkvæðis mun, eða með 66 atkvæðum á móti 65 atkvæðum sem mótframbjóðandi hans, Rósa María Hjörvar hlaut. Kemur þetta fram í skýrslu sannleiksnefndarinnar.
Skiptust atkvæði þannig að Bergvin hlaut 14 atkvæði á kjörstað og 52 utankjörstaðar en Rósa María Hjörvar 30 atkvæði á kjörstað og 35 utankjörstaðar. Samanlagðar atkvæðatölur þeirra töldu því 131 atkvæði sem er tvöföldun á fjölda atkvæða frá því sem verið hafði áður, að því er segir í skýrslunni.
Félagsfundur verður haldinn nú síðdegis klukkan 17 þar sem sannleiksnefndin mun kynna skýrslu sína en nefndina skipa Gestur Páll Reynisson stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur, Helga Baldvins og Bjargardóttir lögfræðingur og sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks hjá Stígamótum og Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Frétt mbl.is: Hafi farið offari gagnvart Bergvini