Stjórn Blindrafélagsins fór offari með framgöngu sinni gagnvart Bergvini Oddssyni fyrrverandi formanni félagsins. Þá er Bergvin sagður hafa sýnt af sér dómgreindarleysi í formannstíð sinni. Þetta er niðurstaða sannleiksnefndar sem félagið setti á laggirnar í kjölfar þess að vantrauststillaga var samþykkt á hendur Bergvini í september síðastliðnum.
Frétt mbl.is: Vantraust á formann Blindrafélagsins
Við það tilefni kom fram að stjórnin teldi Bergvin hafa misnotað vald sitt og brugðist trausti ungs félagsmanns, og þar með sýnt af sér „siðferðilegt dómgreindarleysi“. Sagði stjórnin málsatvik með þeim hætti að „formaður félagsins hafi nýtt sér vettvang félagsins til að véla ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt“.
Í skýrslu sannleiksnefndarinnar sem gefin var út í dag kemur fram að það sé „alls ekki augljóst að formaður Blindrafélagsins hafi rofið trúnað við stjórn félagsins með því að stofna til umrædds viðskiptasambands við einn félagsmanna“.
Hvað sem því líði verði þó að ætla að á Bergvini, sem formanni hagsmunasamtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, hafi hvílt ríkari ábyrgð til að gæta að því að blanda ekki eigin hagsmunum við hagsmuni félagsmanna.
„Í þessu tilviki gæti það leitt til þess að varastjórnarmaður verði ekki frjáls að atkvæðum sínum þar sem hann er orðinn fjárhagslega tengdur formanni sínum. Sannleiksnefndin telur að formaður Blindrafélagsins hafi sýnt í þessu efni dómgreindarleysi og það hafi verið rangt hjá honum að hvetja Patrek til að fjárfesta í félagi með sér og föður sínum.“
Patrekur er sá félagsmaður sem fjárfesti í félagi Bergvins og föður hans, en stjórnin sagði Bergvin hafa vélað Patrek til þessa.
Ljóst er af lestri skýrslunnar að mikil spenna hafi verið innan stjórnarinnar í formannstíð Bergvins og virðist margt hafa valdið henni. Að sögn viðmælenda nefndarinnar voru áherslur hans og starfshættir að sumu leyti öðruvísi en það sem stjórnarmenn höfðu vanist.
„Athygli vekur að í þó nokkur skipti virðist formaður hafa knúið fram atkvæðagreiðslu um mál sem hann lagði fram, sem svo eru felld með öllum greiddum atkvæðum, utan hans eigin,“ segir þar meðal annars.
Er þessi aðferð sögð hafa falið í sér breytingu frá því sem verið hafði, því fram til þessa hafi stjórn Blindrafélagsins tamið sér að ræða mál og móta í umræðum þar til góð samstaða hefði náðst um afgreiðslu.
Þá hafi Bergvin átt það til að fara fram úr sér og stjórninni og „byrjað að vinna og útfæra hugmyndir að verkefnum Blindrafélagsins, áður en málið hafði verið kynnt stjórn eða fengið stuðning hennar“.
Af þeim sökum hafi stjórnin oft þurft að afgreiða þau mál, sem þurftu samþykki hennar, „eftir á“.
Á þeim tíma sem stjórnin fékk vitneskju um upplifun félagsmannsins á viðskiptum sínum við Bergvin segir nefndin að hún hafi haft undir höndum takmarkaðar upplýsingar, „sem í besta falli var hægt að útskýra sem viðskiptalegan ágreining en í versta falli sem fjárhagslega misnotkun formanns Blindrafélagsins gagnvart yngri félagsmanni“.
Segir svo að það virðist sem flestir stjórnarmenn hafi tekið ákvarðanir út frá verstu mögulegu niðurstöðu, án þess að gefa Bergvini færi á að útskýra sína hlið eða undirbúa sig fyrir fund sem kallað var þá til.
„Viðbrögð stjórnarmanna voru þau að ræða þetta sín á milli, útvega Patreki lögmann sem samdi kröfubréf um endurgreiðslu þess fjár sem hann lagði í félagið, halda því beinlínis leyndu fyrir Bergvini hvað gengi á og stilla honum síðan upp við vegg á stjórnarfundi með þessar upplýsingar og birta honum þar kröfubréfið.
Þetta var þvert á ráð lögmanns Patreks um að gefa Bergvini umhugsunarfrest. Andmælaréttur Bergvins var því lítill sem enginn á stjórnarfundinum.“
Það er niðurstaða sannleiksnefndarinnar að stjórnin hafi farið offari með þessari framgöngu sinni. Andmælarétturinn sé bæði grundvallarregla íslensks réttar og grunnur mannlegra samskipta.
Í honum felist að fólki sé gefið tækifæri til að svara fyrir sig og útskýra sína hlið málsins þegar tveir eða fleiri deila, sérstaklega þegar einstaklingar séu bornir þungum sökum og viðbrögðin með jafn afdrifaríkum hætti og vantrauststillaga stjórnar felur í sér.
Þá segir nefndin að það sama eigi við um þá ályktun sem birt var á heimasíðu félagsins eftir fundinn.
„Þar er notast við harkalegt orðalag þar sem formaðurinn er meðal annars sakaður um að hafa „vélað ungan félagsmann til viðskipta“. Þetta orðalag getur sannleiksnefndin ekki fallist á í ljósi þess að Patrekur er lögráða og því bæði sjálfráða og fjárráða auk þess sem móðir hans var með á fyrstu stigum stofnunar þessa félags og vottar þar skjöl og umboð sem sonur hennar skrifar undir.“
Að lokum hvetur sannleiksnefndin til þess að félagið móti sér siðareglur til að koma í veg fyrir að atburðir sem þessir endurtaki sig. Þá gæti það virkað heilandi fyrir starfsemi félagsins.
„Sannleiksnefndin hvetur til þess að slíkar reglur verði settar. Við setningu slíkra reglna er mikilvægt að félagsmenn verði sem mest virkjaðir til þátttöku. Siðareglur eru reglur félagsins og verða því að njóta almenns stuðnings. [...] Í tilviki Blindrafélagsins gæti slík vinna verið heilandi fyrir félagið eftir átök umliðinna mánaða.“