Niðurstaða háskólaráðs Háskóla Íslands, að flytja grunnnám skólans í íþrótta- og heilsufræðum við Laugarvatn til Reykjavíkur, eru vonbrigði.
Hægt hefði verið að komast upp úr núverandi öldudal með aðgerðum líkt og auknum auglýsingum og þróun námsins en í staðinn var tekin sú ákvörðun að flytja námið í andstöðu við vilja nemenda, stjórnenda námsins og fyrrum nemenda við skólann.
Þetta segir Hafþór B. Guðmundsson, formaður námsbrautarinnar, í samtali við mbl.is.
Hafþór hefur stýrt brautinni undanfarin fjögur ár. Hann segir að ákvörðun háskólaráðs hafi komið sér á óvart út frá faglegu sjónarmiði en ekki því sem á undan er gengið síðustu vikur. Segist hann hafa haft trú á því að forsvarsmenn deildarinnar hefðu sýnt frá á að námið að Laugarvatni væri gríðarlega faglegt og gott nám.
„Með því að hafa svona sérstakan kampus, nemendur nálægt okkur og unnið með þeim beint í faglegu námi og umhverfi þar sem næstum allt er sem við þurfum var hægt að halda uppi sterku og faglegu námi,“ segir Hafþór.
Jón Atli Benediktsson, rektor skólans, sagði við mbl.is að ástæður flutningsins væru fjárhagslegar og að hægt væri að tryggja gæði þess betur í Reykjavík, meðal annars með samlegðaráhrifum við aðrar deildir.
Hafþór segist ósammála þessu þar sem hætta sé á því að brautinni verði stillt upp með öðru námi og þar með útþynnt. Þá segir hann að forsvarsmenn deildarinnar hafi ítrekað óskað eftir því að fá að markaðssetja námið betur vegna samkeppni frá HR sem hafi haft mikla möguleika á því. Ekki hafi aftur á móti verið talin ástæða til þess að setja peninga í slíkt og segir Hafþór að þar með hafi brautin illa náð til þess markhóps sem nauðsynlegt var að ná til.
„Við þóttumst hafa sýnt fram á að þetta væri mjög gerlegt og auðvelt,“ segir Hafþór. Aðspurður hvort hann telji skólayfirvöld hafa litið fram hjá þessum rökum segist hann telja svo vera. Segir hann sorglegt að menntastofnun sem eigi að vinna á faglegum nótum frekar en út frá fjöldanum taki svona ákvörðun sem Hafþór segir að muni líklega koma niður á gæðum námsins.
Vísar hann meðal annars til þess að engin áform séu hjá skólanum að byggja sérstakt íþróttahús fyrir brautina þar sem hún gæti dafnað almennilega. „Við vorum til í að fara til Reykjavíkur ef skólinn hefði viljað sýna fyrirhyggju með að byggja íþróttahús í mýrinni og gera þetta almennilega,“ segir Hafþór. Slíkt sé þó ekki á sjóndeildarhringnum og því kalli flutningur á allskonar plástravinnu með að leigja húsnæði af sveitarfélögum með tilheyrandi óvissu.
Lengi hefur verið vitað að kostnaður við námið á Laugarvatni væri nokkuð hærra en í Reykjavík. Hafþór segir að það helgist meðal annars af því að skólinn væri með nokkuð stórt húsnæði sem ekki væri nýtt af öðrum. Hann hafi aftur á móti bent á að háskólinn myndi reyna að finna leiðir til að nýta það betur, til dæmis með því að þangað kæmu hópar í styttri tíma í námskeiðavinnu o.s.frv. Slíku hafi verið fálega tekið.
Segir Hafþór það því skjóta skökku við að nú þegar færa á kennsluna að skólayfirvöld tali um að nýta húsnæðið undir aðra starfsemi skólans. „Nú vilja þeir flytja okkur og þá á að nota húsnæðið fyrir aðra. Af hverju máttum við ekki vera hérna áfram og um leið að það væri nýtt fyrir aðra?“ spyr Hafþór. Bætir hann við að á Norðurlöndunum séu lang flestir íþróttaskólar á sínum eigin stað en ekki tengdir við stærri einingar. Byggt sé undir að aðstaða íþróttabrauta sé góð annarsstaðar með verklegri- og rannsóknaraðstöðu, en hér virðist því vera þver öfugt farið miðað við þessa ákvörðun.
Þar sem niðurstaða liggur nú fyrir segir Hafþór að þrátt fyrir að vera ósammála niðurstöðunni muni hann beita sér fyrir sameiginlegu átaki kennara og stjórnenda brautarinnar að hefja nýjan kafla í Reykjavík. Segist hann ekki ætla í fýlu heldur muni hann fara eftir ákvörðun háskólaráðs og vinna að því að byggja upp sterkt nám í Reykjavík.