Þungunarrof í stað fóstureyðingar

Ásta Guðrún Helgadóttir þingmaður Pírata.
Ásta Guðrún Helgadóttir þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hugtakið fóstureyðing er gildishlaðið og betra væri að nota hugtak á borð við þungunarrof. Þetta kom fram í máli Ástu Guðrúnar Helgadóttur þingmanns Pírata á Alþingi í dag.

Beindi hún fyrirspurn sinni að Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra og spurði hvernig háttaði endurskoðun laga um fóstureyðingar. Vísaði hún til þess að lögin væru komin á aldur sem sjá mætti af orðalagi þeirra og því viðhorfi sem þar birtist.

„Þrátt fyrir að lögin séu túlkuð þannig í dag að það er vilji konunnar sem ræður, þá þarf samt sem áður samþykki óskyldra aðila um hvort konan megi gangast undir þungunarrof,“ sagði Ásta og benti á grein sem birtist í Læknablaðinu í nóvember síðastliðnum.

„Þar bentu læknar á ýmsa þætti en það sem þeim er einkum hugleikið er að samkvæmt núgildandi lögum þurfa tveir læknar, eða læknir og félagsráðgjafi, að samþykkja ákvörðun konunnar.“

Nefnd skipuð til endurskoðunar laganna

Kristján sagði í svari sínu að vissulega þyrfti að endurskoða þennan „fjörutíu ára gamla lagabálk. Ég tek undir að hugtakanotkunin sé önnur og að allt öðruvísi viðhorf, þekking og skilningur hafi legið þá að baki.“

Í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu sem birtist í dag segir að ráðherra hafi skipað nefnd í því skyni að endurskoða í heild lög nr. 25/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.

Þá sé gert ráð fyrir að nefndin ljúki störfum með skýrslu til ráðherra fyrir 1. nóvember 2016.

Formaður nefndarinnar verður Sóley S. Bender prófessor og situr hún í nefndinni ásamt Guðrúnu Ögmundsdóttur félagsráðgjafa og Jens A. Guðmundssyni lækni. Starfsmaður nefndarinnar verður Þórunn Oddný Steinsdóttir, lögfræðingur í velferðarráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka