Allir farþegarnir komnir

Síðustu farþegar Icelandair sem komust ekki frá Boston á mánudagskvöld áttu að koma heim með flugvél sem lagði af stað í gær. Icelandair flýgur tvisvar á dag til Boston.

Boeing 767-þotu félagsins var snúið við á mánudagskvöld þegar ekki tókst að taka upp öll hjólin eftir flugtak. Guðmundur Jensson farþegi sagði að vélin hefði flogið lágflug í um hálftíma þar til flugstjórinn tilkynnti að um tæknilega bilun væri að ræða. Flugvélinni var lent aftur í Boston. Farþegarnir biðu um borð í um 45 mínútur og tóku svo föggur sínar og var ekið á hótel, að sögn Guðmundar. Hann kvartaði yfir því að upplýsingagjöf af hálfu flugfélagsins hefði verið ónóg en hrósaði stöðvarstjórum Icelandair í Boston.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði að 260 farþegar hefðu verið í flugvélinni. Tekist hefði að koma 240 þeirra í aðrar flugvélar eða með öðrum flugfélögum á mánudag og þriðjudag. Um 20 manns fengu ekki far fyrr en í gær.

Guðjón sagði það misskilning að beðið hefði verið eftir varahlutum frá Íslandi til að laga flugvélina.

„Til að hægt sé að skoða svona bilun þarf að lyfta vélinni upp. Við þurftum að sækja tjakka til Norður-Karólínu til að geta lyft vélinni og skoðað hana. Það er ástæða þess hvað skoðunin tók langan tíma,“ sagði Guðjón. Hann hafði ekki fengið upplýsingar síðdegis í gær um hvað olli biluninni. Guðjón átti allt eins von á að flugvélinni yrði flogið til Íslands í gær eða í nótt. 

Föst í Boston frá því á mánudag

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. mbl.is/Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert