Frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um almennar félagsíbúðir fer að öllu óbreyttu fyrir Alþingi í næstu viku þar sem stefnt er að því að samþykkja það áður en þingið fer í sumarfrí. Frumvarpið er nú hjá velferðarnefnd Alþingis sem hefur fundað stíft um félagsíbúðirnar, húsnæðisbætur, húsaleigulög og sjúkratryggingafrumvarpið síðustu daga og er annar fundur boðaður í nefndinni á morgun.
Með frumvarpinu er lagður grunnur að því að fjölga íbúðum á leigumarkaði um 2.300 á næstu fjórum árum og er uppbygging íbúðanna fyrst og fremst í höndum sjálfseignarstofnana og sveitarfélaga. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, segir þó að m.v. núverandi fjárveitingar náist það markmið ekki heldur verði fjöldi íbúða nær 1.300–1.500 íbúðum en búið er að ráðstafa einum og hálfum milljarði til verkefnisins árlega næstu fjögur árin. Hún segir samhug vera um það í nefndinni að koma frumvarpinu fyrir Alþingi sem fyrst þannig hægt sé að samþykkja það fyrir sumarið.
Frétt mbl.is: 1.000 íbúðir fyrir tekjulága
Fjármögnun íbúðanna er með þeim hætti að 18 prósent af stofnvirði íbúða kemur frá ríkinu og 12 prósent frá sveitarfélögum. Samtals 30 prósent á móti 70 prósenta fjármögnun þess sem stendur að uppbyggingu íbúðanna. Ef um félagslegt húsnæði er að ræða nemur framlagið frá ríkinu 22 prósentum þannig að heildarframlagið nemur 34 prósentum af stofnvirði.
Kerfið verður byggt upp með þeim hætti að lægstu tveir tekjufimmtungarnir komast inn í íbúðirnar að sögn Sigríðar Ingibjargar. Er þar um að ræða ungt fólk, lífeyrisþega með lágar tekjur og lágtekjufólk. Segir Sigríður að markmiðið sé að fólk greiði ekki meira en 20 til 25 prósent af tekjum sínum í húsnæði.
Frétt mbl.is: Frumvarp um almennar íbúðir
Spurð hvaða aðilar komi að uppbyggingu félagsíbúðanna nefnir Sigríður Ingibjörg ASÍ sem þegar hefur lýst því yfir að það hyggist byggja upp félagsíbúðir í samvinnu við BSRB, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög.
„Síðan þau félög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða og hafa áhuga á uppbyggingu á leiguhúsnæði,” segir Sigríður Ingibjörg en fjölgun íbúða hjá stofnunum á borð við Félagsstofnun stúdenta koma til með að falla undir nýja kerfið.