Mátti ekki tilnefna stelpu í liðið

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Mér finnst afskaplega dapurt að gamaldags viðhorf séu enn áberandi í íslenskum fótbolta og því ákvað ég að vekja athygli á þessu,“ segir Pétur Már Harðarson, þjálfari hjá Gróttu, á Facebook-síðu sinni í dag. Hann sé annars ekki vanur að vera „að tuða á Facebook“ en geti ekki annað í þetta sinn. Tilefnið er atvik sem átti sér stað á Orkumótinu í Vestmannaeyjum sem stóð yfir á dögunum og lauk í gær þar sem lið í 6. flokki í knattspyrnu kepptu.

Pétur segir frá því að á föstudaginn hafi hann skilað inn upplýsingum um fulltrúa Gróttu fyrir svokallaðan landsleik sem spilaður hafi verið á föstudagskvöldið. „Hvert félag fær að senda einn leikmann í leikinn, öllum er skipt í landslið eða pressulið sem svo spila fyrir framan fulla stúku á aðalvelli ÍBV. Leikmaðurinn sem ég valdi skaraði fram úr í A-liðinu okkar í fyrstu leikjum mótsins og hefur þar að auki sinnt æfingum afskaplega vel í allan vetur og í vor. Fyrirmyndariðkandi í alla staði.“ Hins vegar hafi komið í ljós að leikmaðurinn þótti ekki gjaldgengur.

„Seinni partinn á föstudaginn fékk ég svo símtal frá mótsstjórn þar sem mér var tilkynnt að ég þyrfti að breyta og tilnefna annan leikmann. Af hverju? Af því að ég valdi stelpu sem fulltrúa Gróttu í landsleikinn. Umrædd stelpa hefur æft með 6. flokki karla frá fyrstu æfingu í haust og tekið þátt í öllum leikjum og mótum. KSÍ heimilar jú stelpum að keppa með strákum upp í 3. eða 4. flokk. Fyrir mér er hún ekki gestur í okkar flokki heldur fullgildur meðlimur.“

Pétur segir að útskýringarnar sem hann hafi fengið frá mótsstjórn hafi verið þær að Orkumótið væri strákamót og því ættu strákar að spila landsleikinn. „Eftir að hafa maldað í móinn var mér einfaldlega sagt að Grótta þyrfti að gera betur og tefla fram liðum í 6. flokki kvenna. Það gerum við svo sannarlega og nú um helgina spila þrjú lið frá 6. flokki kvenna í Gróttu á Landsbankamóti Tindastóls á Sauðárkróki. Málið er að við hjá knattspyrnudeild Gróttu erum óhrædd við að hugsa út fyrir kassann og hjá okkur æfa stelpur með strákum ef við teljum það henta þeim betur en að æfa með „sínum flokki“.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert