Íslensku snúðarnir slá í gegn

Aðalbjörg Sigurþórsdóttir og Haukur Leifs Hauksson opnuðu íslenskt bakarí í …
Aðalbjörg Sigurþórsdóttir og Haukur Leifs Hauksson opnuðu íslenskt bakarí í bænum St. John's á Nýfundnalandi. ljósmynd/Volcano Bakery

Þegar Haukur Leifs Hauksson ákvað að opna íslenskt bakarí í bænum St. John's á Nýfundnalandi hafði hann áhyggjur af því að heimamenn myndu ekki falla fyrir íslensku bakkelsi. Móttökurnar hafa hins vegar verið vonum framar og sérstaklega hafa íslensku snúðarnir slegið í gegn.

Volcano-bakaríið var opnað 11. ágúst í St. John's, sem er höfuðborg Nýfundnalands í Kanada þar sem Haukur og eiginkona hans Aðalbjörg Sigurþórsdóttir hafa búið frá árinu 2013 þegar henni bauðst vinna þar á vegum endurvinnslufyrirtækisins Hringrásar.

„Ég var búinn að vera að skoða aðstæður í sambandi við að opna bakarí. Við erum með svolítið öðruvísi bakkelsi á Íslandi. Þetta er svona allt önnur lína. Maður var svolítið hræddur við að þeir myndu kannski ekki alveg falla fyrir því. Við opnuðum bara dyrnar, það var ekki einu sinni búið að setja upp auglýsingaskilti en við fengum alveg rosalega góðan dag. Það spurðist bara einhvern veginn út í hverfinu. Síðan hefur bara verið rosalega gott að gera,“ segir Haukur.

Haukur með nýbakað úr ofninu. Í borðinu má sjá sígilt …
Haukur með nýbakað úr ofninu. Í borðinu má sjá sígilt íslensk bakkelsi eins og kleinur, snúða og vínarbrauð. ljósmynd/Volcano Bakery

Bakar allt frá grunni

Haukur er enginn nýgræðingur í bakstrinum. Hann átti Borgarbakarí á Grensásvegi í átján ár og rak einnig heildsölubakarí á Suðurlandsbraut og síðar Hressó tertur. Hann seldi rekstur síðastnefnda fyrirtækisins árið 2013 þegar þau hjónin fluttu vestur um haf.

Upphaflega segist Haukur bara hafa ætlað að vera með tvær afgreiðslustúlkur með sér, baka sjálfur og skapa sér atvinnu.

„Þetta virðist nú vera að stefna í eitthvað stærra og meira. Þeir virtust kunna vel við að fá svona öðruvísi bakkelsi,“ segir bakarinn en nú hefur Aðalbjörg söðlað um og helgað sig bakaríinu líka.

Heildsalar reyni að ýta að bökurum þurrefnum sem aðeins þurfi að bæta við vatni til að gera brauðmetið tilbúið. Haukur ákvað hins vegar að láta slíkt lönd og leið og baka allt sjálfur frá grunni upp á gamla mátann.

„Það er það sem er að skila þessum mikla árangri. Þeir kunna svo að meta það. Ef ég væri að kaupa blöndunarefni væri ég bara eins og hinir bakararnir í St. John's og að gera sömu hluti,“ segir Haukur.

Brauð á leiðinni úr ofninum. Öll brauðin eru sykurlaus.
Brauð á leiðinni úr ofninum. Öll brauðin eru sykurlaus. ljósmynd/Volcano Bakery

Kemur með nýtt bragð í vínarbrauðin

Helsta muninn á íslenska og kanadíska bakkelsinu segir Haukur vera sykurinn.

„Þeir eru svolítið mikið í að hafa sykur í öllu. Ég tók þá stefnu að hafa öll brauð sykurlaus og það sló í gegn. Það kunnu þeir að meta,“ segir hann.

Heimamenn eru líka með vínarbrauð sem kallast „Danish“ en Haukur segir þau allt öðruvísi uppbyggð en á Íslandi. Samkvæmt dönsku aðferðinni eigi að vera marsipan inni í vínarbrauðinu en í Kanada noti menn smurost og sítrónukrem. Sjálfur notar hann hins vegar vanillukrem eins og hann lærði að gera í Danmörku.

„Ég er að koma með allt öðruvísi bragð í vínarbrauðunum. Þetta var ég kannski hræddastur við, að þeir myndu ekki kunna að meta að bragðið breyttist,“ segir Haukur.

Af sætmetinu eru það hins vegar íslensku snúðarnir sem hafa vakið mesta lukku hjá viðskiptavinum bakarísins. Þar gætir þó meiri íhaldssemi hjá kúnnunum.

„Þeir eru meira í hvíta glassúrnum. Þeir eru mikið ragari við þennan brúna. Sumu breytir maður bara ekki hjá þeim. Maður verður bara að laga sig að því hvernig þeir vilja hafa hlutina,“ segir Haukur.

Íslendingarnir skila sér í bakaríið

Haukur lætur afar vel af dvölinni í St. John's, en svæðið líkist Íslandi að ýmsu leyti.

„Það er svona vetur eins og á Íslandi en við fáum hlýrri og lengri sumur hérna. Það er margt sem minnir mann á Ísland. Þetta er alveg sérstaklega almennilegt fólk sem býr hérna í St. John's,“ segir hann.

Eitthvað er um Íslendinga á svæðinu en Haukur segir að þeir séu nokkuð dreifðir.

„Þeir hafa nú flestallir skilað sér inn í bakarí. Þegar þeir eiga leið um St. John's hafa þeir komið við, náð sér í kúmenkringlu og þess háttar. Maður heldur í gömlu gildin,“ segir Haukur.

Facebook-síða Volcano Bakery

Umfjöllun sjónvarpsstöðvarinnar NTV um bakaríið - hefst á 20. mínútu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka