Bóndinn á svæðinu þar sem sverð sem talið er vera frá 10. öld fannst um helgina, Halldór Magnússon í Ytri-Ásum í Skaftártungu, segir að þetta hafi verið skemmtileg tíðindi.
Frétt mbl.is: „Beið eftir að verða tekið upp“
Ertu búinn að sjá sverðið?
„Já, já, strákarnir sem fundu það voru í gæs hjá mér. Þetta kom inn á heimilið mitt.“
Til fróðleiks eru Ytri-Ásar á svæði Oddaverja eða Svínfellinga?
„Frekar Svínfellinga.“
Þetta hefur verið fallegt sverð?
„Já, þetta var mjög verklegt sverð.
En nú er það farið á Minjastofnun?
„Já, en kannski á þetta gamla dót sem finnst í héraði alveg eins heima hér þegar búið er að aldursgreina og skoða. En þetta er allt borið í burtu til Reykjavíkur eða til Skóga.
Það færi betur að skipta þessu upp og koma með hluta af söfnunum heim í hérað aftur. Á þessum tímum mikillar þenslu í ferðamannaþjónustu á svæðinu.“
Þannig að þú hafðir hugmyndir um hvernig þú gætir notað sverðið?
„Nei, nei, nei, ég ætla ekki að nota sverðið á neinn hátt. En mér finnst ágætt að hugleiða þetta. Það eru allar fornminjar farnar út í Rangárvallarsýslu.
Það er ekki á færi nokkurs manns að skoða allt safnið þar nema menn hafi heilan dag í það.
Hús og munir, þetta er mestallt farið úr héraði.
En á sínum tíma vann Þórður Tómasson stórvirki við byggingu þessa safns á Skógum.“
En hvaðan ætli þetta sverð sé komið, það eru einhver kuml þarna á svæðinu?
„Já, það eru kuml inni í Granagili, það er talið að þar hafi brennumenn verið felldir. En þetta sverð hefur verið grafið.“
Ætli það muni finnast eitthvað meira á svæðinu?
„Maður veit svo sem ekki hvort það finnist eitthvað meira.
Það getur líka verið að hlaupið í haust hafi tekið hitt, þannig að það sé ekkert annað að finna þarna lengur.“
Hvernig er annars þarna hjá ykkur, er ennþá búsældarlegt?
„Búsældarlegt? Jú, jú. Ef það væri sæmilegur bóndi sem byggi hér í Ásum.“