Hjólreiðaviðburðurinn Tour of Reykjavik fer fram í fyrsta sinn í dag. Keppnin sjálf fer fram í Laugardalnum þar sem bæði verður boðið upp á að hjóla alla leið að Þingvallavatni eða styttri hringi í Laugardalnum og miðborg Reykjavíkur. Keppnin hófst í morgun klukkan 8.30 fyrir framan Laugardalshöll og þar lýkur henni að sama skapi síðar í dag. Keppnin hefur í för með sér mjög víðtækar lokanir fyrir akandi umferð í Reykjavík í dag á meðan á henni stendur.
Frétt mbl.is: Aldrei eins umfangsmiklar lokanir
Dagskráin á marksvæðinu er svohljóðandi:
08.30 40 km ræstir
08.45 110 km ræstir
09.40 Fyrstu í 40 km væntanlegir
10.00 13 km ræstir
10.10 Verðlaunaafhending 40 km
10.20 Fyrstu í 13 km væntanlegir
11.40 Fyrstu í 110 km væntanlegir
12.10 Verðlaunaafhending 110 km
14.00 Tímatöku hætt
14.10 Barnabraut – 2 km
Fram kemur í fréttatilkynningu að von sé á mjög harðri og spennandi keppni í 110 km vegalengdinni. Þar sé keppt í bæði einstaklings- og liðakeppni karla og kvenna. Flest af besta hjólreiðafólki landsins er skráð til þátttöku ásamt öflugum erlendum keppendum frá Hollandi og Danmörku, segir enn fremur.
Frétt mbl.is: Víðtækar lokarnir vegna Tour of Reykjavík
Enn fremur sé keppt um titilinn CamelBak King of the Mountain en hann hljóti fyrsti karl og fyrsta kona upp Nesjavallabrekkuna við Hengil. Sömuleiðis sé keppt í svokölluðum Pola-spretti á Langatanga við Eirhamra í Mosfellsbæ. Fljótasti karl og fljótasta kona á þeirri leið verði verðlaunuð sérstaklega.
Fjölbreyttur hópur sé einnig skráður í 40 km og 13 km vegalengdirnar, bæði keppnisfólk í hjólreiðum og fjölskyldur á öllum aldri. Veitt verða verðlaun fyrir fyrstu þrjú sæti karla og kvenna í 40 km en ekki er keppt til verðlauna í 13 km.
Þeir yngstu munu hjóla 2 km leið um þrönga og skjólsæla stíga Laugardalsins. Helstu persónur Latabæjar munu hita upp og taka þátt með krökkunum.
Nánari upplýsingar um Tour of Reykjavik: