Hjólreiðaviðburðinum Tour of Reykjavik lauk um tvöleytið þegar tímatöku í 110 km vegalengdinni lauk, en fyrstu hjólreiðagarparnir voru ræstir klukkan hálfníu í morgun.
Frétt mbl.is: Tour of Reykjavik fer fram í dag
Þetta er í fyrsta sinn sem viðburðurinn er haldinn og sagði Anna Lilja Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Íþróttabandalags Reykjavíkur, í samtali við mbl.is að hjólreiðafólk hefði verið hæstánægt með daginn.
„Það er búin að vera mikil gleði hérna í Laugardalnum og hjólreiðafólkið er mjög ánægt. Það voru um 700 manns sem tóku þátt en í fyrsta Reykjavíkurmaraþoninu voru þáttakendur 214 þannig að þetta er ágætis byrjun.“
Eins og greint var frá á mbl.is fóru víðtækar lokanir á götum borgarinnar illa í suma ökumenn.
„Við höfum heyrt óánægjuraddir með lokanirnar. Það var svo sem við því að búast en það er margt sem hefði mátt gera betur í þeim efnum. Þetta er í fyrsta sinn sem við höldum viðburðinn og þó að við höfum reynslu af viðburðahaldi er þessi að mörgu leyti öðruvísi. Það skal alveg viðurkennast að þetta hefði mátt fara betur.“
Frétt mbl.is: Margir pirraðir vegna lokana
Anna Lilja telur að almennt hafi viðburðurinn heppnast vel og grundvöllur sé fyrir því að endurtaka hann á næsta ári. Þá verði stefnt að því að fjölga erlendum þátttakendum.
„Þeir voru ekki margir núna, kannski um 10. Við vorum ekki búin að fara í sérstaka markaðssetningu erlendis en eins og með Reykjavíkurmaraþonið er markmiðið að auka þátttöku útlendinga með tímanum.“
Búið er að veita verðlaun í keppnisvegalengdunum og voru verðlaunahafar eftirfarandi.
40 km konur
1. Inga María Ottósdóttir, Víkingur, 01:03:17.149
2. Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, Bjartur, 01:03:22.174
3. Eva Margrét Ævarsdóttir, Tindur, 01:03:24.954
40 km karlar
1. Guðmundur Sveinsson, HFR, 00:55:49.411
2. Stefán Orri Ragnarsson, HFR, 00:55:49.435
3. Magnús Fjalar Guðmundsson, HFR, 00:55:52.169
Guðmundur og Stefán komu í mark á sömu sekúndunni og aðeins skildu nokkur sekúndubrot þá að.
110 km konur
1. Erla Sigurlaug Sigurðardóttir, Tindur, 03:38:52.467
2. Ágústa Edda Björnsdóttir, Tindur, 03:38:52.639
3. María Ögn Guðmundsdóttir, HFR, 03:51:07.903
Ágústa og Erla unnu saman alla leiðina. Þær komu á sömu sekúndunni í mark og var Erla sjónarmun á undan.
110 km karlar
1. Tobias Mörch, Danmörku, 02:49:10.902
2. Magnus Bak Klaris, Danmörku, 02:55:14.054
3. Ingvar Ómarsson, Tindur, 02:55:56.894
110 km – Liðakeppni kvenna
1. Team Tindur
2. Team HFR konur
110 km – Liðakeppni karla
1. Amager Cykle Ring
2. Team WOW
3. Örninn Trek