Fornleifafræðingar á vegum Minjastofnunar fundu í gær botninn á kumlinu í landi Ytri-Ása þar sem gæsaskyttur fundu lærlegg á laugardag, skammt frá þeim slóðum þar sem 10. aldar sverð fannst í byrjun septembermánaðar. „Því miður hefur áin tekið allt nema sverðið, vinstri fótinn og einhverjar smá járnleifar sem við munum skoða betur þegar búið er að flytja þær í bæinn,“ segir Kristín Hrund Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar.
Ólíklegt sé því að fleiri minjar finnist úr kumlinu nema fyrir tilviljun. „Annars erum við bara farin að treysta á gæsaskytturnar,“ segir Kristín Huld kímin.
Frétt mbl.is: Fundu mannabein skammt frá sverðinu
Búið var að aldursgreina sverðið út frá útliti og reyndist það vera af tegund sem var frá 10. öld. Kristín Huld segir að þar sem hluti mjaðmagrindar fannst þá eigi einnig að vera hægt að kyngreina beinagrindina, sem hún telur þó ólíklegt annað en sé af karli. Öllu erfiðara verður hins vegar að segja til um hve gamall einstaklingurinn hafi verið er hann lést.
„Það hefði verið auðveldara ef hauskúpan hefði fundist, en það er þó ekki ómögulegt,“ segir Kristín Huld. „Þá ætti einnig að vera hægt að greina hvort hann hafi verið með einhverja sjúkdóma eða annað slíkt, þannig að það ætti eitthvað áhugavert að koma út úr þessu.“ Hún bætir við að síðan sé náttúrulega alltaf spurning hvort fleiri munir finnist sem varpi frekari ljósi á fundin.
Frétt mbl.is: Fundu sverð frá tíundu öld