Ketill Magnússon, eigandi víkingaskipsins Vésteins sem sökk í smábátahöfninni á Granda í kvöld, mætti í morgun til að festa skipið betur við höfnina. Þá virtist allt vera í góðu lagi.
Frétt mbl.is: Víkingaskipið sökk í storminum
Skipið er bundið vestan megin við bryggjuna. Það gusaðist yfir það í óveðrinu í kvöld og fór mikið vatn inn í skipið.
Að sögn Ketils er lensdæla í skipinu, sem á að sjá til þess að dæla vatni upp úr því, en ef til vill hefur henni slegið út.
Spurður út í tjónið segist hann ekki gera sér alveg grein fyrir því. „Þetta er náttúrulega víkingaskip. Það þolir ýmislegt,“ segir hann.
Frétt mbl.is: Kafarar kanna aðstæður í höfninni
Ákveðið hefur verið að hífa víkingaskipið upp úr smábátahöfninni síðar í kvöld. Kafarar munu setja belgi hvora sínu megin við skipið og verða bönd sett á milli belgjanna undir kjölinn.
Að sögn Gísla Hallssonar yfirhafnsögumanns verður blásið upp í belgina og skipinu svo lyft aðeins upp. Því verður síðan fleytt að bryggjunni.
Skipið, sem er fjögurra tonna þungt, verður því næst flutt með vörubíl í Snarfarahöfn.
Víkingaskipið Vésteinn var smíðað á Þingeyri árið 2008 og hefur það verið duglegt að sigla með ferðamenn í allt sumar. Síðasta ferðin sem það fór var um síðustu helgi.