Þetta eru lítil skref í rétta átt

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta er vissulega skref í rétt átt,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í samtali við mbl.is. Ríkisstjórnin samþykkti í gær tillögu félags- og húsnæðismálaráðherra sem felur í sér hækkun hámarksgreiðslu í fæðingarorlofi úr 370.000 krónum á mánuði í 500.000 krónur á mánuði.

Við vorum auðvitað með tillögur um að hámarksgreiðslurnar yrðu hækkaðar upp í 600.000 þúsund, fæðingarorlofið yrði 12 mánuðir og að fyrstu 300.000 krónurnar yrðu ekki skertar. Það var okkar tillaga og við höldum henni til streitu en þetta er vissulega í rétta átt,“ bætir Elín við.

Áður hafði ráðherra lagt fram frumvarp í sumar sem fól í sér að óskert­ar viðmiðun­ar­tekj­ur yrðu 300 þúsund krón­ur, há­marks­greiðslur í fæðing­ar­or­lofi áttu að hækka um 62% og lengja átti fæðingarorlofið í áföngum.

„Við hefðum gjarnan viljað að lengingin hefði komið inn núna,“ segir Elín en BSRB þykir einnig afar brýnt að óskertar viðmiðunartekjur verði 300.000 krónur. 

Formaðurinn vildi lítið segja um hvort henni þætti tímasetning samþykktarinnar áhugaverð. Breytingin verður að veruleika 15. október en gengið verður til kosninga 29. október. „Við fögnum þegar það næst að bæta það mikilvæga kerfi sem fæðingarorlofið er en ég hefði viljað sjá gengið lengra í þessu mikilvæga máli. Þetta eru lítil skref í rétta átt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert