Alltaf útköll á jólavaktinni

Magndís Blöndahl Halldórsdóttir frá LSH, Daníel Freyr Þorsteinsson, Sigurbjörn Guðmundsson, …
Magndís Blöndahl Halldórsdóttir frá LSH, Daníel Freyr Þorsteinsson, Sigurbjörn Guðmundsson, Aron Orrason og Hafsteinn Halldórsson. Árni Sæberg

Ró er að færast yfir höfuðborgarsvæðið enda klukkan að nálgast sex og jólin að ganga í garð. Flestir eru með sínum nánustu í kvöld en það á ekki við um D-vaktina hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem stendur vaktina í nótt.

Mbl.is tók hús á þeim Sigurbirni Guðmundssyni varðstjóra og Hafsteini Halldórssyni aðstoðarvarðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins en þeir eru vakt í kvöld.

„Jólin hitta illa á þetta árið,“ segir Hafsteinn og hlær en bætir við að þetta komist í vana, ekki bara hjá þeim heldur einnig fjölskyldum þeirra. Enda báðir með langa reynslu að baki, Hafsteinn hefur starfað í slökkviliðinu í tæp átján ár og Sigurbjörn í rúm sextán ár.

Sigurbjörn Guðmundsson, varðstjóri í slökkviliðinu, og Hafsteinn Halldórsson aðstoðarvarðstjóri.
Sigurbjörn Guðmundsson, varðstjóri í slökkviliðinu, og Hafsteinn Halldórsson aðstoðarvarðstjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölskyldan lagar sig að vöktum vaktavinnufólks og því er borðað snemma á þeirra heimilum í dag. Þeir sem eru á dagvakt á jóladag fá síðan fjölskyldur sínar í mat á jóladag en það er löng hefð fyrir því í slökkviliðinu og afar hátíðlegt segja þeir.

D-vaktin hóf vaktatörnina með dagvöktum miðviku- og fimmtudag en eru nú á næturvöktum um helgina. Vaktin hefst klukkan 19:30 en þeir mæta heldur fyrr til vinnu. Bæði til þess að fara yfir stöðu mála með varðstjórunum sem eru að ljúka dagvaktinni og til að hleypa vinnufélögunum heim í jólamatinn. Þeir eru síðan á dagvakt á gamlársdag og nýársdag þannig að það er lítið um hátíðarhöld hjá þeim þessi jól og áramót.

Eldsvoðar eru orðnir sjaldgæfari en áður á jólum en mikið er um sjúkraflutninga. Meðal annars annast slökkviliðið flutning á sjúklingum heim að sjúkrastofnunum um jólin. Fólk sem er rúmliggjandi er þá keyrt til síns heima áður en hátíðin hefst og sótt þegar líða tekur á kvöldið.

Sigurbjörn segir að þetta sé ákaflega þakklátt starf og mjög gott að geta aðstoðað veikt fólk við að komast heim til fjölskyldunnar. Þeir hafi jafnvel keyrt sjúkling alla leið til Grindavíkur eitt árið og sótt hann síðar um kvöldið.

Sat lengi í mér segir Hafsteinn

Hafsteinn rifjar upp atvik sem gerðist á aðfangadagskvöld eitt árið og sat lengi í honum. Þá var slökkviliðið kallað út vegna eldsvoða og þegar komið var á vettvang kom í ljós að pottur hafði gleymst á eldavél og mikill reykur í íbúðinni. Greiðlega gekk að reykræsta en þarna hafði eldri maður, sem bjó einn, verið að reyna að malla sér eitthvað að borða á aðfangadagskvöld. Hann hafði síðan skroppið eitthvað frá og þegar hann kom heim hafði máltíðin brunnið við og íbúðin full af reyk.

„Þegar við komum aftur niður á stöð hugsaði ég með mér: hvers vegna í ósköpunum tókum við ekki manninn með okkur á slökkviliðsstöðina. Þar vorum við með nóg að borða, hópur fólks saman kominn í stað þess að hann varð eftir einn heima hjá sér,“ segir Hafsteinn.

Ætlast er til þess að slökkviliðsmenn séu í góðu formi …
Ætlast er til þess að slökkviliðsmenn séu í góðu formi og því er æfingasalur í slökkviliðsstöðinni í Skógarhlíð. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki barn heldur brúða

Sigurbjörn og Hafsteinn voru eitt sinn á dagvakt á aðfangadag og voru að ljúka vaktinni þegar það kom eldsútkall í miðborginni. Þegar þeir komu á vettvang var allt logandi og íbúðin full af reyk.

„Þetta var um sexleytið og við vissum ekki hvort einhver var heima í íbúðinni og við sáum ekki neitt,“ segir Sigurbjörn. Þeir þreifa sig um íbúðina og þegar Hafsteinn snertir barnarúm heyrðist barnsgrátur. „Þá tók hjartað heldur betur kipp,“ segir Sigurbjörn og Hafsteinn bætir við að það hafi verið mikill léttir þegar í ljós kom að þetta var ekki barn heldur brúða og að unga fjölskyldan sem þar bjó var í mat hjá foreldrum.

„En þetta var gríðarlegt tjón og þegar þau komu heim þá höfðu þau misst allt því það var altjón á íbúðinni,“ segir Sigurbjörn. Þarna hafði gleymst logandi kertaskreyting ofan á sjónvarpstæki fjölskyldunnar.

Þrátt fyrir að útköllum hafi fækkað yfir sjálfa jólahátíðina líður aldrei sú vakt hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins að ekki þurfi að sinna einhverjum útköllum. Yfirleitt eru 40-70 sjúkraflutningar á dag og þeim hefur fjölgað ár frá ári. Vegna þeirrar fjölgunar eru komnar sérstakar sjúkraflutningavaktir hjá SHS.

Hópur starfsfólks er alfarið á 8-12 klukkustunda löngum sjúkrabílavöktum og sinnir sjúkraflutningum allan sólarhringinn. Alls eru 25 starfsmenn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu á vakt í kvöld og nótt á fjórum slökkviliðsstöðvum.

Þar af eru 9-13 (eftir tíma sólarhrings) í Skógarhlíðinni þar sem höfuðstöðvar slökkviliðsins eru til húsa. Hinar stöðvarnar eru á Tunguhálsi, Skútahrauni og Skarhólabraut í Mosfellsbæ en það er nýjasta slökkviliðsstöðin á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert