Aðstandendur Færeyjasöfnunar 16 hafa nú stofnað viðburðinn Styðjum Færeyinga! þar sem hægt er að senda Færeyingum kveðju, eða kvitta fyrir stuðning við söfnunina. Í fréttatilkynningu segir að þegar séu farnar að safnast hlýlegar kveðjur frá Íslendingum til Færeyinga.
Viðburðurinn hangir saman við fjársöfnun sem var hrint af stað á Facebook-síðunni: „Færeyingar og Íslendingar eru frændur“ á milli jóla og nýárs. Tilefni söfnunarinnar er umtalsvert eignatjón sem varð í Færeyjum yfir jólahátíðirnar vegna ofsaveðurs sem gekk yfir eyjarnar og er markmið söfnunarinnar að bæta færeysku björgunarsveitunum það tjón sem þær urðu fyrir á búnaði, er þær unnu þrekvirki við björgunarstörfin.
Áætlað heildartjón vegna búnaðarins er metið á um 6,7 milljónir íslenskra króna. Núna stendur söfnunarupphæðin í 4.416.109 kr.
Söfnunarféð verður afhent Landssambandi björgunarfélaganna í Færeyjum í kringum næstu mánaðamót og verður söfnunin opin fram til miðnættis sunnudaginn 15. janúar.
Þeim sem vilja leggja söfnuninni lið er bent á reikninginn 1161 26 006000. Kt. 170961-7819.