„Það er allt til rannsóknar í þessu máli. Ef það koma fram einhverjar nýjar vendingar þá eru þær til rannsóknar,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjón, spurður hvort lögreglan rannsakar hvort önnur stúlka hafi mögulega verið í bílunum við Hafnarfjarðarhöfn morguninn þegar Birna hvarf eins og Stundin greindi frá í dag. Líkt og fyrr vildi Grímur ekki staðfesta þetta né tjá sig frekar um einstaka framburði mannanna í rannsókninni.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær mennirnir tveir, sem eru í haldi vegna gruns um að hafa veitt Birnu Brjánsdóttur bana, verða yfirheyrðir aftur.
Ekkert kerfi í rauða bílnum virðist geta varpað ljósi á hvar hann var daginn sem Birna hvarf frá klukkan 7 til 11.30. Í rannsókninni hefur ekki verið lögð áhersla á kanna frekar ferðir bílsins fyrir kl. 5.25. „Við teljum okkur hafa verið búin að gera það,“ segir Grímur.
Grímur segir að ekki sé enn komin niðurstaða í lífsýnarannsóknir á munum sem hald var lagt á í Polar Nanoq, meðal annars fötum tvímenninganna. Styttri tíma hafi tekið að fá niðurstöður varðandi lífsýni úr rauða bílnum þar sem sú rannsókn hafi fengið algjöran forgang.
Grímur vildi ekki tjá sig um mögulegt vopn þar sem lögreglan hefur ekki greint frá því hvernig lát Birnu bar að.