Esjujeppinn kominn á jafnsléttu

Jeppinn var settur upp á vörubílspall og fluttur í bæinn.
Jeppinn var settur upp á vörubílspall og fluttur í bæinn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Jeppinn sem setið hefur fastur í hlíðum Esjunnar var dreginn þaðan á níunda tímanum í kvöld. Eigandinn fór á staðinn með mannskap á öflugu ökutæki og þannig var losað um. Þegar komið var niður á jafnsléttu var jeppinn svo færður upp á dráttarbíl og fluttur á brott.

Það var síðdegis á laugardag sem göngumenn urðu jeppans varir, þar sem hann stóð fyrir ofan Mógilsá í 427 metra hæð.  Í gær, sunnudag, birtu netmiðlar síðan myndir af vettvangi. Þá var eftirgrennslan lögreglu hafinn og í morgun gaf bíleigandinn sig fram.

„Ökumaðurinn, sem jafnframt átti bílinn, gat litlar skýringar gefið, nema að þetta hefði verið einhver óvitagangur. En björgunin í kvöld tókst vel,“ segir Steinar Þór Snorrason lögreglumaður sem var á vettvangi. Hann er sjálfur vanur fjallgöngum og lét sig því ekki muna um að hlaupa upp fjallið  þar sem bíllinn var. Þar eru nokkrar skemmdir enda var bíllinn fastur í mýri 200 metra fyrir utan vegslóðann sem ökumaðurinn hafði brölt upp á jeppa sínum.

Steinar Þór Snorrason lögreglumaður var á vettvangi.
Steinar Þór Snorrason lögreglumaður var á vettvangi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert