Hættu við síðasta spottann

Ævintýramenn. Fiann Paul fremstur, þá Alex Gregory og Carlo Facchino …
Ævintýramenn. Fiann Paul fremstur, þá Alex Gregory og Carlo Facchino aftastur í róðri á N-Íshafinu. Ljósmynd/Polar Row

„Ölduhæðin er ekki nema fjórir metrar í Norður-Íshafinu, sem gerði leiðangurinn þó auðveldari en t.d. á Indlandshafi þar sem ölduhæðin getur orðið tólf metrar,“ sagði Fiann Paul í samtali við Morgunblaðið.

Sjávarróðrarleiðangurinn Polar Row sem hann stjórnaði í Norður-Íshafinu tók enda á Jan Mayen í gær, en þá var eftir að róa þaðan og suður á Sauðárkrók, sem var þriðji og síðasti hluti leiðangursins.

Hópur einhverra bestu sjávarræðara heims undir leiðsögn Fianns, frá Íslandi, Noregi, Bretlandi, Indlandi og Bandaríkjunum, reri af stað frá Tromsö í Noregi í júlí sl. til Svalbarða og norður að íshellunni. Þaðan reru þeir til Jan Mayen. Hópurinn hafði ákveðið að reyna við tólf heimsmet og safna áheitum til að reisa skóla í Himalajafjöllum.

Hópurinn náði þó að fella ellefu af tólf heimsmetum, áður en hann varð að hætta við seinasta spölinn.

„Það tókst ekki að fá lendingarleyfi á Jan Mayen fyrir flugvél með þriðja settinu af mannskap til að klára leiðangurinn, en tveir hópar af ræðurum voru orðnir uppgefnir, allir nema ég og Bandaríkjamaðurinn Carlo Facchino,“ sagði Fiann.

Andlegur styrkur og úthald

Fiann kvað þurfa gríðarmikinn andlegan styrk og úthald í svona ferðalög, menn þyrftu að vera bjartsýnir og jákvæðir, yfirvegaðir í erfiðleikum og hafa hæfileika til að hlusta vel eftir líkamlegum einkennum, en slys og veikindi gætu sett strik í reikninginn. Andlegt atgervi væri svo enn mikilvægara en líkamlegt úthald sem þó væri nauðsynlegt því kappróður á úthafinu jafngilti því að hlaupa tvö maraþon á dag.

Gera bæri ráð fyrir því að eitthvað færi úrskeiðis og þá þyrfti kraft, von og útsjónarsemi til að bregðast við þeim áskorunum. „Í þetta skiptið var veðrið slæmt og við urðum rafmagnslausir sökum sólarleysis, en það er vont út af t.d. staðsetningartækjum um borð,“ bætir hann við.

Fiann Paul er íslenskur lista- og afreksíþróttamaður fæddur árið 1980 í Póllandi og uppalinn þar en flutti til Íslands fyrir tólf árum og gerðist ríkisborgari hér. Hann er einn fremsti sjávarræðari heims.

Fiann tekur þátt í sjávarróðri fyrir Íslands hönd og hefur róið yfir stóru úthöfin fjögur, Atlantshaf, Indlandshaf, Kyrrahafið og nú Norður-Íshafið á árabát án fylgdarbáta. Hann er fyrsti maðurinn í heiminum sem hefur átt hraðaheimsmet á þremur stóru úthöfunum samtímis, en þeim áfanga náði hann árið 2016 og verður sá árangur ekki af honum tekinn þar eð hann varð fyrstur. Nánari upplýsingar er að finna á www.oceanrowing.com.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert