Brekkurnar komu Dönunum í opna skjöldu

Anton Örn Elfarsson (þriðji frá hægri) er hluti af danska …
Anton Örn Elfarsson (þriðji frá hægri) er hluti af danska hjólreiðaliðinu Team ACR-FBL Elite Powered by Integra Advokater. Ljósmynd/Aðsend

Team ACR-FBL Elite er eitt þeirra liða sem tekur þátt í hjólreiðaviðburðinum Tour of Reykjavík sem fer fram um helgina. Liðið er skipað Íslandsmeistaranum í götuhjólreiðum, Antoni Erni Elfarssyni, ásamt sjö dönskum hjólareiðaköppum, fjórum körlum og þremur konum.

„Ég byrjaði að hjóla þegar ég var 12 ára, svo minnkaði það nú aðeins á meðan ég var í námi hérna heima í háskólanum,“ segir Anton í samtali við mbl.is. Hann byrjaði svo að hjóla aftur af krafti þegar hann fór til Kaupmannahafnar í meistaranám og er nú orðinn hluti af dönsku liði. Anton var einnig hluti af landsliði Íslands á Smáþjóðaleikunum í sumar þar sem hann tók þátt í götuhjólreiðum og tímakeppni.  

Anton (fyrir miðju) á fullri ferð í Kia-Gullhringnum í fyrra. …
Anton (fyrir miðju) á fullri ferð í Kia-Gullhringnum í fyrra. Með honum á myndinni eru Hafsteinn Ægir Geirsson(t.v.) og Rúnar Karl Elfarsson (t.h.) Mynd/Arnold Björnsson

Anton var staddur við Gullfoss þegar mbl.is náði tali af honum. „Ég er að sýna liðsfélögunum keppnisbrautina og ákvað að nýta tækifærið og túristast aðeins í leiðinni.“ Í ár skiptist Tour of Reykjavík upp í tvær dagleiðir. Á laugardeginum er áherslan lögð á keppnishjólreiðar, en þá munu hjólreiðakapparnir fara 125 km leið í fylgd lögreglu frá Laugardal, um Mosfellsheiði til Þingvalla og Nesjavallaleið til baka. Á sunnudeginum verður hjóluð svokölluð borgarleið sem samanstendur af þremur 20 kílómetra borgarhringjum eða samtals 60 kílómetrum. 

Tour of Reykjavík er fyrst og fremst einstaklingskeppni þó að nokkur lið séu einnig skráð til leiks. „Það er kannski svolítið erfitt að útskýra fyrirkomulagið, það er í rauninni bara einn sem fær heiðurinn. Það má líkja þessu við að ef að sá sem skorar mörkin í fótboltaleik standi einn uppi sem sigurvegari, en ekki allt liðið,“ segir Anton.  

Liðið sem slíkt skiptir þó miklu máli í keppninni. „Þetta snýst um samvinnu. Brautin hentar oft ákveðnum keppendum betur en öðrum og þá hjálpar liðið þeim aðilum meira, til dæmis með því að brjóta vindinn.“

Þurfti að draga sig í hlé á síðustu stundu

Anton tók þátt í í Tour of Reykjavík í fyrra og var hann orðinn mjög spenntur að taka aftur þátt í ár. Hann fékk hins vegar þær fréttir fyrir stuttu að hann þyrfti að draga sig úr keppni. „Ég hef verið að berjast við einhvers konar ofþjálfun og þarf að taka því rólega samkvæmt læknisráði. Það er smá skellur en ég veit að ef ég fer ekki varlega mun þetta há mér í framtíðinni.“

Anton verður því í nýju hlutverki um helgina. „Ég verð í aðstoðarbílnum sem keyrir fyrir aftan hópinn, þar verð ég með auka mat og drykk, gjarðir og dekk ef það springur. Ég verð klár og reyni að leggja taktíkina.“

Endalausar brekkur

Mikilvægasti hluti undirbúnings er að undirbúa liðið fyrir allar brekkurnar á leiðinni. „Ég er nú ekki búinn að fara með þau yfir Nesjavallaleiðina sem er langstærsta brekkan, en þeim finnst samt nóg um brekkur hingað til.“ Þar spilar kannski inn í að Danirnir eru vanir að hjóla á miklu sléttlendi. „Ég var búin að segja þeim að þetta yrðu svona ein til tvær brekkur en þeim finnst þetta ekki vera neitt nema brekkur, það er svolítið fyndið,“ segir Anton. 

Anton telur keppni eins og Tour of Reykjavík gott tækifæri til að efla götuhjólreiðar á Íslandi. „Mér finnst gaman að koma heim með svona hóp og gefa Íslendingunum færi á að spreyta sig á móti alþjóðlegum keppinautum. Tvær af stelpunum í liðinu hafa keppt með dönsku landsliðunum svo það verður gaman að sjá þær keppa við íslensku keppendurna.“

Hægt verður að fylgjast með Tour of Reykjavík í beinni á mbl.is. Hér má nálgast dagskrá helgarinnar.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert