Búast má við töluverðri truflun á umferð í höfuðborginni fyrir hádegi á laugardag og sunnudag vegna hjólreiðaviðburðarins Tour of Reykjavík. Keppnin skiptist í tvær dagleiðir og verða um 1.000 keppendur ræstir frá Laugardalnum bæði á laugardag og sunnudag.
Í tilkynningu frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, sem sér um skipulagningu viðburðarins, kemur fram að á laugardagsmorguninn verður truflunin aðallega utan borgarmarkanna, á Vesturlandsvegi og Þingvallavegi milli kl.8:00 og 10:00 og aðreinum inn á Suðurlandsveg og Vesturlandsveg milli 11:00 og 12:30. Þá verða Grafningsvegur og Nesjavallarvegur alveg lokaðir frá kl.10:30-12:00.
„Þetta eru fyrst og fremst öryggissjónarmið sem við erum að fylgja,“ segir Árni Friðleifsson lögreglumaður í samtali við mbl.is.
Á sunnudagsmorguninn verður hjólað úr Laugardal niður í miðbæ og í kringum Tjörnina. Þá verða götur í kringum Tjörnina alveg lokaðar og einnig Engjavegur, Sæbraut og Skeiðarvogur en Suðurlandsbraut er lokuð að hluta. Truflanir verða á öðrum leiðum en umferð hleypt í gegn þegar færi gefst.
„Við hvetjum fólk til að nota Hringbraut og Miklubraut,“ segir Árni.
Töluverð óánægja var meðal bílstjóra og íbúa á höfuðborgarsvæðinu í fyrra vegna lokana sem gerðar voru þegar Tour of Reykjavík fór fram í fyrsta skipti. Lokanirnar í ár verða umfangsminni og standa yfir í styttri tíma en í fyrra. Stefnt er að því að allar götur verði opnaðar upp úr hádegi. „Á meðan borgarbúar sofa út eru hinir að hjóla,“ segir Árni.
„Í fyrra var Bústaðavegurinn lokaður, hann sker borgina svolítið í tvennt. Í ár verður lokunin svipuð og á Menningarnótt. Norðurhluti Sæbrautar lokast en Hringbraut og Miklabraut verða opnar,“ segir Árni.
Bílstjórar eru hvattir til að kynna sér vel lokanir á tourofreykjavik.is. Einnig mun lögreglan á höfuðborgarsvæðinu upplýsa ökumenn um lokanirnar á Facebook-síðu sinni.