Klukkan 21:50 í kvöld varð jarðskjálfti af stærð 3,4 norðaustur af Selfossi og hafa tilkynningar borist Veðurstofunni um að skjálftinn hafi fundist vel á Selfossi og í nágrenni. Jarðskjálftahrina hefur verið í gangi á svæðinu frá því um kl. 16:00 í dag. Skjálfti af stærðinni 2,9 varð um klukkan 20:40 kvöld og fannst hann einnig vel á Selfossi og í nágrenni.
Skjálftahrinan er ekki á gossvæði, að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. „Þetta er á Suðurlandsskjálftabeltinu. Í raun sama belti og hrökk þegar stóru skjálftarnir 2008 komu. Það er spennulosun á því svæði núna,“ segir Bryndís Ýr Gísladóttir náttúrvársérfræðingur.
Bryndís segir að búast megi við því að hrinan haldi eitthvað áfram eins og staðan er núna. Hún segir þó alltaf erfitt að segja nákvæmlega til um hvað gerist. Hrinan gæti þess vegna dáið út eftir einhverja klukkutíma. Hún segir heldur ekki hægt að segja til um hvort von er á stærri skjálftum á svæðinu á næstunni. „Eins og maður vildi geta spáð um það þá er það því miður ekki hægt.“
Fréttin hefur verið uppfærð.