1.200 íþróttakonur undirbúa yfirlýsingu

AFP

Mikill hugur er í íþróttakonum landsins sem um þessar mundir undirbúa yfirlýsingu sína í tengslum við #metoo byltinguna. Að sögn Hafdísar Ingu Hinriksdóttur, sem er í forsvari fyrir hópinn, eru um tólfhundruð konur, þvert á íþróttagreinar, í hópnum sem mun fljótlega koma fram með sínar sögur.

Hafdís Inga segir ansi margt mega betur fara í karllægum heimi íþróttanna. „Við þurfum oftar en ekki að berjast fyrir hverri einustu krónu sem í kvennaíþróttir eru settar og oft á tíðum fyrir tilverurétti okkar innan íþróttanna.“

Viðhaldi vandanum með því aðlaga sig umhverfinu

„Svo er klefastemningin auðvitað svolítið morkin en það sem er líka vandamál er að konur eru oft að viðhalda þessum vanda í íþróttunum af því við erum að reyna að aðlaga okkur að umhverfinu. Við konur þurfum berjast gegn þessu og setja kröfur um breytingar.“

 Hún segir mikilvægt að íþróttakonur sætti sig ekki við þær hrútskýringar sem þær fá oft á því hvers vegna hlutirnir eru eins og þeir eru. Þær þurfi að fara að berja í borðið og setja mörk.

„Við erum að eyða jafn miklum tíma og erum með jafn mikinn metnað og karlarnir. Það er ekki réttlætanlegt að við fáum ekki sömu hlutina.“

 Hjá félögum og sérsamböndum segir hún skorta siðareglur og verkferla sem allir vinni eftir en séu ekki bara til ofan í skúffu. „Við vitum alveg til þess að þjálfarar sem beita ofbeldi ganga á milli liða.  Svo velti ég því fyrir þér hvort að okkur þyki eðlilegt að dæmdir kynferðisbrotamenn séu í landsliði?“

Ekki jafn mikilvægar og strákarnir

„Þetta snýr ekki bara að ofbeldi sem slíku heldur líka því að strax frá því að við erum litlar þá fáum við að finna fyrir því að við séum ekki jafn mikilvægar og strákarnir.“

Hafdís Inga segir að til að jafna hlut karla og kvenna innan íþróttanna þurfi að taka allan strúktúrinn í gegn. 

„Hér erum við að tala um risahreyfingu þar sem börn og fullorðnir taka þátt og því er algjört lykilatriði að allt sé gert til að sporna við ofbeldi, áreitni og mismunun. Svo má auðvitað ekki horfa framhjá því að innan íþrótta þrífst mikið og alvarlegt andlegt ofbeldi sem þarf einnig að útrýma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert