Lokað undir Eyjafjöll vegna óveðurs

Hringveginum yfir Reynisfjall hefur verið lokað vegna óveðurs.
Hringveginum yfir Reynisfjall hefur verið lokað vegna óveðurs. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Hringveginum undir Eyjafjöllum og yfir Reynisfjall hefur verið lokað vegna óveðurs.

Mjög hvasst er á svæðinu og hafa vindhviður farið yfir 35 metra á sekúndum, einkum í Öræfum. Þá blæs talsvert syðst á landinu með austar og norðaustan 18-25 metrum á sekúndu og snjókomu eða slyddu.

Frétt mbl.is: Getur slegið í 35 metra

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands verður áfram hvasst í kvöld og nótt.

„Þetta fer ekkert að skána í dag. Gert ráð fyrir að það verði stormur undir Eyjafjöllum og í Öræfum þar til í fyrramálið. Þetta ætti að vera orðið skaplegra á morgun,“ segir Haraldur Eiríksson veðurfræðingur í samtali við mbl.is.

Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi og Suðausturlandi, sem merkir að veðrið getur á einhvern hátt sett strik í reikning vegfaranda eða að það þurfi að sýna sérstaka aðgát. Vegfarendur eru beðir um að sýna aðgát og reyni eftir föngum að gera breytingar á sínum ferðum.  

Lægðin sem nú gengur yfir landið fer sér heldur hægt. „Þetta er nokkuð djúp lægð sem er suð-suðvestur af landinu, hún er að dóla sér rólega í austur en svo á morgun fer hún að grynnast og þá minnkar vindurinn,“ segir Haraldur.

Aðrir landshlutar sleppa ágætlega við hvassviðrið. „Reyndar gengur á með dálitlum éljum á Austurlandi, en annars staðar er þurrt og bjart veður.“

Haraldur segir að það sé of snemmt að spá fyrir um hvort janúar muni einkennast af mörgum djúpum lægðum, líkt og fyrstu dagar mánaðarins sýna. „Maður verður bara að vona það besta held ég.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert