Með myndarlegt mar eftir skotköku

Maðurinn fékk kúlu úr skotköku í bakið af um þriggja …
Maðurinn fékk kúlu úr skotköku í bakið af um þriggja metra færi. Ljósmynd/Teitur Guðmundsson

Betur fór en á horfðist þegar maður fékk kúlu úr skotköku í bakið á gamlárskvöld. Maðurinn leitaði sér aðstoðar á heilsugæslu í dag og segir læknir hans, Teitur Guðmundsson, að maðurinn hafi verið heppinn að sleppa „bara“ með mar.

„Hann harkaði bara af sér en er nú kominn með myndarlegt mar, þetta er búið að þroskast í rúman sólarhring. Þetta er klassískt, djúpt og mikið mar,“ segir Teitur í samtali við mbl.is.

Kúlan rispaði einnig bak mannsins eins og sjá má greinilega á myndunum sem Teitur birti á Facebook-síðu sinni, með leyfi mannsins.  

Skotkakan fór á hliðina eftir að kveikt hafði verið í henni og fór kúlan í bakið á manninum og frá bakinu kastaðist hún lengra áður en hún sprakk. 

Teitur hefur þær upplýsingar frá manninum að um hafi verið að ræða skottertu sem ber heitið Top Gun og er þríhyrnd stór kaka sem er seld hjá björgunarsveitunum. Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, staðfestir í samtali við mbl.is að kakan sé fáanleg hjá þeim, og hafi verið í mörg ár. „Við tökum þessu mjög alvarlega,“ segir Smári.

Varhugavert að börn séu nálægt skotkökum

„Allar skottertur eru mjög hættulegar í grunninn, en þetta er stórhættulegur flugeldur ef þetta getur gerst,“ segir Teitur.

Hann telur það varhugavert að börn séu almennt nálægt skotkökum. „Ef að flugeldur af þessu afli hittir barn þá er maður nú í meiri háttar vandræðum. Og jafnvel sem fullorðinn, ef þetta hittir á vitlausan stað geta komið heilmiklir áverkar, innvortis áverkar og blæðingar og brot.“

Sérstakir flipar festir undir kökurnar

„Við reynum að bregðast við öllu, því eitt slys er auðvitað einu slysi of mikið,“ segir Smári, sem ítrekar að Landsbjörg taki slysum af þessu tagi mjög alvarlega.

Landsbjörg hefur ávallt haft öryggissjónarmið að leiðarljósi við sölu flugelda, að sögn Smára. „Við förum til Kína og ræðum allt sem miður fer við framleiðendur flugeldanna með því markmiði að gera betur.“

Top Gun-skotkakan hefur verið í sölu hér á landi í nokkur ár og hafa verið gerðar breytingar á henni. „Í þessu tilfelli, varðandi Top Gun, voru settir flipar undir kökuna til að gera hana stöðugri. Ef fólk hefur ekki notað flipana, sem ég veit reyndar ekki hvort var gert í þessu tilfelli, þarf greinilega að merkja þá betur,“ segir Smári.  

Með notkun flipanna mætti koma í veg fyrir að skotkakan fari á hliðina, eins og gerðist á gamlárskvöld þegar maðurinn fékk skot úr kökunni í bakið. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert