Svifryksmetið slegið

Blá móða var yfir höfuðborgarsvæðinu vegna svifryksmengunar fram eftir degi …
Blá móða var yfir höfuðborgarsvæðinu vegna svifryksmengunar fram eftir degi í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum að slá annað met núna, að því er okkur sýnist að þetta sé hæsta sólarhringsgildi í svifryki sem við höfum mælt í Reykjavík,“ segir Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Hæsta sólarhringsmeðaltal svifryks frá upphafi mælinga var mælt við Grensásveg fyrstu klukkustund ársins, að því er kemur fram á vef Reykjavíkurborgar. Svava segir þær veðuraðstæður sem voru í gær hafa haldið menguninni yfir borginni og styrkur svifryks því verið mun lengur að falla en vanalega. „Þetta er vant að falla mjög ört þegar líða fer á nóttina en þarna vorum við að hanga í háum gildum langt fram eftir degi á öllum stöðum.“

Hvetja fólk til að draga úr mengun

„Okkar hlutverk er að vara fólk við og fylgjast með þessari mengun og þetta fór eins og við óttuðumst og auðvitað hvetjum við alltaf fólk til þess að draga úr mengun eins og hægt er,“ segir Svava að lokum.

Svifryk á höfuðborgarsvæðinu.
Svifryk á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þorsteinn Jóhannsson, um­hverf­is­fræðing­ur og sér­fræðing­ur hjá Um­hverf­is­stofn­un, telur að það hversu lengi hátt gildi svifryks mældist í loftinu einnig hafa verið met. „Ef það er svona ágætur vindur á er þetta bara farið á klukkutíma stundum hefur þetta verið fram eftir nóttu, nú var þetta eiginlega bara allan nýársdag fram á seinni partinn á nýársdag bara. Maður sá bara að það var blá móða alveg fram yfir klukkan 14.“

Viðkvæmu hóparnir stærri en margir halda

Fimmtán manns leituðu á Landspítalann vegna andþyngsla í gær. Þorsteinn segir ekki alla þá sem finni fyrir öndunarörðugleikum leita læknis, heldur aðeins verstu tilfellin. „Sumir láta sig bara hafa það og aðrir bæta við sig astmalyfjum og verða skárri þannig.“

Þá séu viðkvæmu hóparnir ekki einungis örfáir veikir lungnasjúklingar. „Fyrir það fyrsta eru það bara öll ung börn, allt eldra fólk og svo allir þeir sem eru með einhverja undirliggjandi lungnasjúkdóma þannig það er alveg ágætlega stór hópur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert